131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:33]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi í ræðu sinni, sérstaklega það að héraðsfréttablöðin gegna verulega miklu hlutverki á landsbyggðinni, ekki síst í ljósi þess að þau flytja upplýsingar til íbúa þar og auka þar með og styrkja sjálfsmynd þessara svæða.

Hv. þingmaður hreyfði því að hann teldi vel koma til greina að ríkið legði fram fjármuni til þess að styrkja rekstur slíkra fjölmiðla. Hann nafngreindi einungis tvo slíka fjölmiðla sem, ef ég skildi hv. þingmann rétt, eru gefnir út við Eyjafjörð. Á hv. þingmaður við að ríkisstyrkur sé takmarkaður við Norðurland þegar hann talar um þetta á almennum nótum og hvernig vill hv. þingmaður þá gera upp á milli fjölmiðla á sömu svæðum, þ.e. ef fleiri en einn héraðsfjölmiðill er gefinn út í sama héraði á þá að gera upp á milli þeirra eða eiga allir að fá slíka styrki?