131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:28]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í svarinu er gert ráð fyrir að fyrirspyrjandi eigi við svæðið innan línu sem dregin er réttvísandi austur-vestur um Hríseyjarvita en innan þeirrar línu eru dragnótaveiðar að öllu jöfnu bannaðar.

Hinn 8. febrúar 2005 veitti ráðuneytið mb. Sólborgu EA 270 tímabundið leyfi til dragnótaveiða innan ofangreindrar línu í því skyni að fanga lifandi fisk til áframeldis í sjókvíum hjá Brim – fiskeldi og eru veiðarnar þáttur í eldistilraunum fyrirtækisins. Leyfi bátsins gildir til 8. apríl. Báturinn hætti hins vegar veiðum á þessu svæði 21. febrúar og stundar nú veiðar á öðrum svæðum fyrir Norðurlandi. Samtals stundaði báturinn veiðar á svæðinu í sjö daga og landaði að frádregnum afföllum 9.601 fiski í kvína eða 9.323 kílóum.

Í vaxandi mæli er farið að stunda veiðar til áframeldis umhverfis landið og hefur sérstök úthlutun á kvóta til aðila í fiskeldi orðið hvati til þess. Veiðar til eldis eru stundaðar með dragnót, vörpu, línu og handfærum. Miklu skiptir að veiðarnar séu stundaðar með þeim hætti að fiskurinn verði fyrir sem minnstu hnjaski og að afföll séu í lágmarki.

Línu- og handfæraveiðar eru heimilar á fjörðum og flóum og geta því bátar sem þær veiðar stunda veitt fisk til eldis án þess að þurfa til þess sérstök leyfi önnur en almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni. Hins vegar eru togveiðar bannaðar inni á fjörðum, og víðast hvar dragnótaveiðar. Þar sem vörpur og dragnætur virðast henta vel við föngun á lifandi fiski til áframeldis hefur ráðuneytið fallist á að veita sérstök tímabundin tilraunaleyfi til báta sem nota þau veiðarfæri inni á fjörðum og flóum, þar með talið til ofangreindrar Sólborgar.

Til að komast hjá óþarfahnjaski við meðhöndlun á lifandi fiski er æskilegt að stunda veiðarnar sem næst þeim kvíum sem flytja á fiskinn í. Enn fremur skiptir miklu máli að fiskurinn sé veiddur í sem grynnstu vatni þannig að þrýstingsmunurinn verði sem minnstur þegar hann er hífður upp. Rétt er að fram komi að sjaldan er um mikið magn af fiski að ræða sem veiddur er með þessum veiðarfærum og hafa smábátasjómenn á þeim stöðum þar sem veiðarnar eru stundaðar sýnt þessum nýjungum í atvinnurekstri skilning ef undan er skilið Eyjafjarðarsvæðið þar sem hefur komið fram hörð gagnrýni af hálfu eigenda minni báta.