131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Varnarviðbúnaður við eiturefnaárás.

624. mál
[15:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þóttu svör hæstv. ráðherra varðandi það hvað hann hygðist fyrir í málinu dálítið þokukennd. Nú er liðið ár frá því skýrslan lá fyrir og hæstv. ráðherra var ekki að hampa henni nokkurn hlut þann tíma. Nú virðist vanta verulega upp á að hæstv. ráðherra hafi gert sér grein fyrir því í hvaða feril málið eigi að fara. Hann slær því fram að samstarf þurfi milli þessara og hinna aðilanna, sem er ósköp eðlilegt. En það er greinilegt að hæstv. ráðherra er ekki búinn að gera upp hug sinn í málinu og hefur ekki tekið ákvörðun um að setja af stað tiltekið ferli til að vinna að þessum mikilvægu atriðum. Ég vil hvet hæstv. ráðherra til að gera það, koma sér úr þessum sporum og yfir í að til verði einhvers konar áætlun um það sem ákveðið verður að gera. Mér finnst ekki upp á það bjóðandi mikið lengur að menn hafi ekki einhverjar áætlanir af þessu tagi.