131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:40]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örstutt athugasemd. Í máli mínu áðan vék ég að því að það hefði verið viss tilviljun, a.m.k. ekki pólitísk stefnumörkun, sem lá því að baki að bensínstöðvarnar hófu sölu á matvörum allt árið um kring. Mér finnst það ótengt því að við opnuðum fyrir það að þær gætu boðið þá þjónustu þessa þrjá tilteknu daga með lagabreytingu á sínum tíma vegna þess að tæplega hafa bensínstöðvarnar ákveðið að bjóða upp á matvöru 365 daga á ári til að ná sölunni þá þrjá daga sem hinir gátu ekki boðið upp á þá þjónustu. Það er þetta sem ég átti við í máli mínu og mér finnst enn skorta dálítið á það hjá þeim sem eru andvígir þessu frumvarpi að þeir greini frá því hvernig við eigum að bregðast við þeim aðstöðumun sem vissulega er til staðar. Menn geta haft þá skoðun að hann sé ekki til staðar, eins og mér finnst jafnvel mega lesa úr máli sumra, en því er ég algerlega ósammála. En séu menn þeirrar skoðunar að hann sé til staðar þarf að greina frá því hvernig á að bregðast við þeirri stöðu vegna þess að það er það sem frumvarpið snýst um fyrst og síðast.