131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:43]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem gengur út á að ráðherrar skuli ekki jafnframt vera þingmenn.

Í þessu sambandi vil ég nefna frumvarp sem ég flutti um afnám forsetaembættisins þar sem ítarlega var komið inn á þrískiptingu valdsins og ég ætla að leyfa mér að lesa úr því, með leyfi forseta:

„Misjafnt er hversu langt einstök ríki og stjórnarskrár þeirra ganga í greiningu ríkisvaldsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Hvað sem því líður er ljóst að slík greining er til þess fallin að auka réttaröryggi borgaranna. Í íslenskri stjórnskipun eru ýmsar undantekningar frá kenningunni um þrígreiningu valdsins eins og hún birtist í sinni hreinustu mynd. Mikilvægasta undantekning frá þrígreiningunni í íslenskri stjórnskipun er vafalítið þingræðisfyrirkomulagið sem gerir það að verkum að ríkisstjórnir sitja í skjóli meiri hluta Alþingis. Önnur undantekning frá skýrri skiptingu valdsins milli löggjafar- og framkvæmdarvalds er að ráðherrar skuli jafnframt vera þingmenn. Þriðja undantekningin er tilvist embættis forseta Íslands, en samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár telst forseti æðsti handhafi framkvæmdarvalds og einnig löggjafarvalds ásamt Alþingi.“ — Hann er sem sagt báðum megin.

Enn fremur má nefna frumkvæði að lagasetningu sem liggur að mestu utan Alþingis og inngrip Alþingis í framkvæmdir eru breytingar á fjárlögum. Alþingi er sem sagt stöðugt að ákveða framkvæmdir. Það er því ýmislegt að í aðgreiningu og þrískiptingu ríkisvaldsins.

Framkvæmdarvaldið hefur sett á laggirnar nefnd til að endurskoða stjórnarskrána og er hún að störfum núna. Þetta frumvarp sem og frumvarpið um afnám forsetaembættisins koma eiginlega á mjög góðum tíma til að sú nefnd geti tekið það með í starf sitt og hún mun að sjálfsögðu, reikna ég með, taka með þau sjónarmið sem hér eru rædd og fara í gegnum þau þegar hún vinnur sitt starf.

Þetta mál sem við ræðum nú, um fjölda þingmanna, var nokkuð rætt í framsöguerindi 1. flutningsmanns. Mér fannst gæta ákveðins misskilnings þar. Í dag er það svo að 51 þingmaður rekur í rauninni Alþingi, þ.e. 51 þingmaður sem situr í þingnefndum og sinnir alþjóðastarfi og það mundi ekkert breytast þótt við fækkuðum þingmönnum niður í 51. Ráðherrarnir sætu hérna á bekkjunum og hefðu ekki atkvæðisrétt. Það mundi ekkert breytast að öðru leyti og enginn kostnaður kæmi til heldur, það væri bara nákvæmlega hið sama. Eina sem gerðist væri það að hlutföllin milli flokkanna yrðu óbreytt, nema að því leyti að ráðherrarnir, sem ekki hafa atkvæðisrétt, væru úr einhverjum flokkum. Þeir þurfa ekki endilega að vera í flokkunum, þeir geta náttúrlega verið utan flokka.

Ég sé ekki að neitt breytist í sjálfu sér. Það mætti meira að segja fækka um akkúrat einn í hverju kjördæmi. Svo einfalt er nú það. Það skemmtilega er að þessi salur hérna, sem ég er mjög hrifinn af og hef bundið miklu ástfóstri við vegna þess að hann takmarkar fjölgun þingmanna. Af því að ég er nú alltaf að gæta hagsmuna ríkiskassans sé ég þennan sal sem hemil á útgjöldum ríkisins til fjölgunar þingmanna. Það er ekki hægt að bæta við fleiri þingmönnum. Það yrði því ekki hægt að bæta við tólf, ég sé ekki hvar ætti að koma þeim fyrir, nema þá að stækka salinn og það kostar þá enn þá meira.

Ég sé ekki annað en að þetta verði mjög einfalt, að fækka þingmönnum niður í 51 og hafa allt að öðru leyti óbreytt.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þingræðið og flokksræðið og 1. flutningsmaður kom inn ráðherraræðið. Hluti af því, eða það sem við heyrum allt of oft í þingsal þar sem þingmenn segja: Við vinstri grænir. Þeir tala einni röddu. Við samfylkingarmenn. Það er eins og þeir séu samtengdir heilar og allir með sömu skoðun. Þetta sýnir flokksræði. Þetta ýtir undir ráðherraræði hjá stjórnarflokkunum.

Ég hef stundum, einstaka sinnum, dansað út úr röðinni við stuðning við stjórnarfrumvörp. Þá hefur það valdið mestu uppnámi, ekki hjá stjórnarflokkunum, nei, það veldur mestu uppnámi hjá hv. stjórnarandstæðingum sem býsnast þá yfir hvernig í ósköpunum standi á því, stórtíðindi séu að gerast, stjórnin sé að springa, og ég veit ekki hvað, af því að einn þingmaður fylgir sannfæringu sinni. Stjórnarandstaðan virðist vera duglegust í því að reka stjórnarþingmenn saman í þingflokkana, undir ráðherraræðið.

Menn töluðu áðan um að menn séu barðir til verka. Ég held að það gerist ekki. Ég hef a.m.k. aldrei verið barinn til verka. Menn hafa ekki reynt það. Það sem ég geri þegar ég styð frumvörp sem ég er ekki endilega hlynntur er að ég met meiri hagsmuni fyrir minni. Ég fórna minni hagsmunum til að ná fram meiri hagsmunum. Ég styð ómerkileg stjórnarfrumvörp að mínu mati, sem eru ómerkileg í einhverjum skilningi, gegn því að hafa mjög góða ríkisstjórn sem kemur mjög góðum hlutum í gegn. Þá er ég tilbúinn til að víkja minni hagsmunum fyrir meiri. Þetta held ég að allir þingmenn þurfi að gera reglulega og fólk almennt.

Það er eitt í þessu máli sem ekki hefur komið fram. Ég vara við að þetta frumvarp verði samþykkt vegna þess að það þýðir þingrof, nema menn vilji það.