131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[13:47]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1022 sem er mál nr. 670. Um er að ræða frumvarp til laga um gæðamat á æðardúni. Frumvarp þetta er samið af nefnd sem landbúnaðarráðherra skipaði sl. haust til að endurskoða núgildandi lög nr. 39/1970, um gæðamat á æðardúni.

Með frumvarpinu er kveðið skýrt á um að sömu reglur gildi um dreifingu á æðardúni á innlendan og erlendan markað. Lagt er til að ákvæði eldri laga haldist óbreytt að því leyti að ekki verði heimilt að flytja úr landi nema fullhreinsaðan æðardún.

Árið 2004 var skipuð nefnd af hálfu landbúnaðarráðherra til að endurskoða lög nr. 39/1970, um gæðamat á æðardún. Í nefndinni sátu: Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Árni Snæbjörnsson hlunnindaráðunautur, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Jónas Helgason, bóndi í Æðey, tilnefndur af Æðarræktarfélagi Íslands, og Sigtryggur R. Eyþórsson, forstjóri XCO ehf., tilnefndur af Félagi íslenskra stórkaupmanna.

Nefndin hélt sex fundi og fór yfir öll gögn máls sem hefur verið til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna meintrar mismununar á kröfum til gæða æðardúns annars vegar til sölu innan lands og hins vegar til útflutnings. Í frumvarpinu er tekinn af allur vafi um að það sama gildir um dreifingu innan lands og erlendis.

Niðurstaða nefndarinnar var að endurskoðun laganna væri mikilvæg fyrir þessa atvinnugrein. Í frumvarpinu er lagt til að landbúnaðarráðuneytið gefi út starfsleyfi til handa dúnmatsmönnum en í gildandi lögum hefur skipan matsmanna verið í höndum lögreglustjóraembætta. Eðlilegra þykir að landbúnaðarráðuneytið, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna, veiti dúnmatsmönnum leyfi til starfa. Lagt er til að kostnaður af störfum dúnmatsmanna greiðist af matsbeiðanda samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra gefur út.

Hæstv. forseti. Fleira er ekki um málið að segja á þessu stigi. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.