131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[13:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra svaraði í nánast engu spurningum mínum. Það vekur að sjálfsögðu viss vonbrigði. En það er alveg rétt sem hæstv. landbúnaðarráðherra benti á að frumvarpið fer í landbúnaðarnefnd. Ég sit þar sem áheyrnarfulltrúi og ég efast ekki um að nefndin muni skoða frumvarpið mjög vandlega. Æðarræktun er afskaplega skemmtileg, spennandi og merkileg atvinnugrein og ég hygg að við verðum að vanda mjög vel til verka þegar við setjum þeirri grein reglur.

Það má alls ekki skilja orð mín sem svo að ég sé á móti því að eftirlit sé með þeirri lúxusvöru sem æðardúnninn er, langt í frá, en fyrst hæstv. ráðherra gat ekki svarað spurningum mínum hér og nú hljóta sömu spurningar að vakna þegar málið kemur til meðferðar hjá landbúnaðarnefnd.