131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:01]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvelt er að taka undir þá skoðun með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að þetta sé sérstakt mál og öðruvísi en mörg önnur. Tilfellið er að þetta er dálítið öðruvísi mál og dálítið öðruvísi markaður en venjulegur markaður. Ég veit t.d. að æðarbændur hafa verið sakaðir um að þeir drepi fuglinn og reiti hann. Sá áróður hefur verið rekinn gegn þessari atvinnugrein úti í heimi en eins og allir hér þekkja verður æðardúnninn auðvitað til í hreiðrum æðarfuglsins, er safnað saman og hann nýttur. Þetta er ein baráttan sem þeir standa frammi fyrir, eitt áróðursatriðið á heimsmarkaði. Þess vegna er mikilvægt, eins og þeir leggja til og mikil samstaða er um hjá þeim, að búa við trúverðugt kerfi til að selja æðardún á heimsmarkaði. Þeim hefur gengið mjög vel við það undir þessum formerkjum því að það hafa þeir gert alla tíð. Eins og hv. þingmaður sagði er málið því dálítið sérstakt og ólíkt öðrum.

Þannig er lífið og ég hef farið yfir það að þrátt fyrir hina flóknu EES-samninga, blessað Evrópusambandið og allt það þá mun ESA líklega viðurkenna málið, að með því sé gætt jafnræðis hvað sölu og markað varðar hér heima og erlendis ef við gerum það með þessum hætti.

Ég legg málið í hendur þingsins og landbúnaðarnefndar, komið í þennan búning, og tel atvinnugrein landbúnaðarins mikilvægt að fá það sett sem lög.