131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:29]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um gæðamat á æðardúni undirstrikar í rauninni þá sérstöðu sem nýting og hirðing æðardúns hefur. Þessi lög eru í sjálfu sér ákveðin endurskoðun á þeim lögum sem nú þegar gilda um mat á æðardúni.

Ég held að mjög mikilvægt sé að menn átti sig á því að hirðing á æðardúni er afar sérstök sem búskapur ef má kalla það svo því þarna er verið að nýta náttúrulega afurð af dýrum, í þessu tilviki fuglum, sem lifa villt í náttúrunni. Þessi afurð á að vera hirt án þess að valda æðarfuglinum nokkru tjóni og alls ekki, frekar hitt að þetta sé m.a. liður í því að hlúa að æðarfuglinum og tilvist hans í vistkerfinu.

Þetta er því ákaflega ólíkt því að framleiða vöru sem er algjörlega í okkar umsjá, t.d. dilkakjöt þar sem kindur eru inni og afmarkaður bás, mjólk og því um líkt. Þá eru allir þættir framleiðslunnar í okkar höndum og þetta er búrekstur. Hér er hins vegar verið að nýta afurð af fuglum sem eiga að lifa og hrærast í náttúrunni án þess að inngrip okkar hafi áhrif á þá. Því er mjög eðlilegt að til þessa búskapar, þessarar starfsemi séu gerðar sérstæðar kröfur, ekki aðeins varðandi lífríkið sjálft sem á í hlut heldur einnig gagnvart vörunni sem verið er að taka. Eins er ekki hvað síst mikilvægt að geta sannað fyrir umheiminum að umrædd vara sé hirt á sjálfbæran hátt og án þess að valda neinu tjóni í lífkerfinu sem verið er að nýta. Hvort sem okkur finnst það sanngjarnt eða ósanngjarnt þá getur sú umræða reynt að hafa áhrif á okkur hvað þennan atvinnuveg varðar hvenær sem er. Við þurfum því ávallt að vera reiðubúin að mæta því sem þar getur komið fram hvort sem okkur finnst það sanngjarnt eða ósanngjarnt. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að í þessu tilviki séu settar sérstakar kröfur um rekjanleika, um meðferð og um gæði til þess að tryggja stöðluð gæði vörunnar á markaði og til þess að sanna heiminum að þarna sé unnið að hirðingu dúns án þess að valda lífríkinu tjóni. Ég vil bara undirstrika hér að þetta hefur algera sérstöðu og á ekki hliðstæðu við iðnrekstur eða annað slíkt sem er háð allt öðrum lögmálum. Svo er það líka að heimsmarkaður á dúni er ekki stór og þess vegna er ástæða til að um hann sé haldið. Okkur er trúað fyrir þeim náttúrulegu verðmætum sem felast í því að hirða æðarfuglinn og við verðum að geta gert það á trúverðugan og sannan hátt og geta sannað það fyrir umheiminum hvenær sem er.

Ég sé þetta sem ein stærstu rök fyrir því að um þetta séu sett lög. Vel má vera að draga þurfi fleiri þætti inn í lagaumgjörð æðarbúskapar, t.d. rannsóknir eins og hér hefur verið nefnt, þ.e. að fylgja þessum búskap eftir með auknum rannsóknum. Deilt er um stöðu þessa fugls gagnvart veiðum, gagnvart grásleppuveiðum t.d. Vel gæti því verið ástæða til að setja um þennan búskap sérstök lög sem taki til hinna ýmsu þátta. Mér finnst þess vegna alveg verjanlegt og rétt að setja lög um rekjanleika og gæðamat á æðardúni og jafnframt nauðsynlegt að það sé markmið í sjálfu sér að nýta hann og vinna eins og kostur er á innan lands í hágæðavöru til útflutnings.