131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:58]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það hefur ekki komið nógu skýrt fram í umræðunni að mínu mati hver þörfin er á þessu eftirliti. Ég sé ekki að sú þörf eða markmiðið með þessu frumvarpi séu ljós, því miður. Það hefur komið fram að kílóið af æðardún kostar 71 þús. kr. Ég fékk síðan þær upplýsingar að það þyrfti eitt kíló í eina sæng. En það vantar upplýsingar um hvað vinnst með því að setja þessi lög og ég tel að það þurfi að koma betur fram.

Einnig þarf að koma fram að ein afleiðing frumvarpsins virðist sú að með því sé komið í veg fyrir að æðardúnn sé fluttur óunninn úr landi. Þá er rétt að spyrja sig: Hver er ávinningurinn af því? Ég spurði hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni hvort aðrir framleiðendur hafi beðið skaða af því að æðardúnn hafi verið fluttur út óunninn. Því hefur ekki verið svarað og ég sakna þess.

Ef það hefur orðið, ef aðrir framleiðendur hafa beðið skaða, er réttlætanlegt að setja þessa löggjöf, að koma í veg fyrir að óunninn æðardúnn sé fluttur út. Ef það fæst hins vegar ekki upp á borðið að svo sé er kannski ekki rétt að setja þessa löggjöf. Maður sér það a.m.k. ekki.

Það er rétt að taka fram í þessari umræðu að til eru lög um opinberar eftirlitsreglur. Þau eru frá árinu 1999, nr. 27 og þar segir í 3. gr.:

„Þegar stjórnarfrumvarp sem felur í sér ákvæði um eftirlit er lagt fyrir ríkisstjórn skal leggja fram greinargerð um mat skv. 1. mgr.“ — Samkvæmt henni skal í fyrsta lagi meta þörfina fyrir eftirlitið, og ég sé það ekki í þessu frumvarpi, því miður, og svo gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Ég sakna þess að þessir tveir þættir komi ekki fram í þessu litla frumvarpi. Síðan heldur áfram:

„Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.“

Mér finnst rétt að fá það upp í umræðunni hvort farið hafi verið að þessum lögum, lögum um opinberar eftirlitsreglur, við samningu þessa frumvarps. Ég sé að margir mætir menn hafa komið þar að og má nefna Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur lögfræðing, Árna Snæbjörnsson hlunnindaráðunaut, Jónas Helgason, bónda í Æðey, og Sigtrygg Eyþórsson. Ég tel að uppfylla þurfi þessi lög, að þau séu nauðsynleg, lögin um opinberar eftirlitsreglur. Hefur það verið gert? Ef ekki, á þá ráðherra að draga frumvarpið til baka? Eru menn kannski farnir að leggja þessi lög um opinberar eftirlitsreglur algerlega til hliðar, taka ekkert mark á þeim? Þá er alveg eins gott að nema þau úr gildi, ef þau hafa hvort eð er ekkert gildi lengur. Mér finnst vert að hæstv. ráðherra svari því hér. Hann átti erfitt með að svara spurningu um markmið laganna og þýðingu þeirra í umræðunni þegar hann var spurður beint út. (Landbrh.: Nei, nei.) Það kom ekki skýrt fram og ekki fylgir nein tilhlýðileg greinargerð þessu frumvarpi um gæðamat á æðardúni eins og þó frumvarpinu ber samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur.

Það er því miður svo að þótt hæstv. ráðherra segi ætíð að hann beri hag bænda fyrir brjósti er sú ekki raunin, alls ekki — ég sé það eftir að hafa fylgst mjög náið með störfum hans á síðustu tveimur árum. Skemmst er að minnast þess að Framsóknarflokkurinn hefur komið mjög illa fram við bændur, t.d. tók hann upp á því núna að hækka rafmagnsverð … (Gripið fram í.) Þetta eru staðreyndir, hæstv. ráðherra, því miður. (Gripið fram í.) Þetta eru staðreyndir og fólk finnur fyrir því víða á landsbyggðinni að kostnaður til húshitunar með rafmagni eykst. Það er náttúrlega sorglegt. (Landbrh.: Þetta er spurning um …) Við erum að ræða um þetta. Síðan er annað sem snertir — vegna þess að hæstv. ráðherra virðist kippa sér upp við þessa umræðu sem snýst þó bara um staðreyndir um verk Framsóknarflokksins — æðarbændur beint, verk Framsóknarflokksins, og það er að ríkið hefur skert framlög til refaveiða og minkaveiða til að halda þessum vargi í skefjum.

Síðan má einnig nefna — sem eru líka staðreyndir — að hæstv. ráðherra brást illa við þegar verið var að ræða um útræðisrétt strandjarða sem kemur æðarbændum mjög við. Það er enn eitt sorgardæmið um það hve mjög Framsóknarflokkurinn hefur villst af leið.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra þeirrar einföldu spurningar hvort farið hafi verið að lögum um opinberar eftirlitsreglur.