131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[15:05]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekkert við því að gera þótt hv. þm. Sigurjón Þórðarson verði sér nánast til skammar upp á hvern einasta dag með málflutningi sínum, persónulegum svívirðingum um einstaklinga og flokka. Ég tek það ekki einu sinni nærri mér. Ég hef hlustað á þennan mann upp á nánast hvern einasta dag, þennan hv. þingmann, og undrast málflutning hans. Ég hélt kannski að JC ætlaði að taka hann í læri í félagsvísindum.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að hér er farið að lögum því að í lögum um eftirlitsreglur er ekki kveðið á um staði þar sem eftirlit er þegar til staðar eins og í þessu tilfelli. Hér hefur eftirlit verið í áratugi með þessum hætti og þess vegna er ekki verið að breyta til og það getur verið áfram með sama hætti og verið hefur. Það er alveg skýrt og var vel yfir það farið í nefndinni.

Ég get ósköp vel skilið að hv. þingmaður sem virðist lítið þekkja til landbúnaðarins tali eins og hann gerir í flestum málum. Þó kemur hann úr þessu stóra landbúnaðarhéraði, hv. þingmaður, þar sem hann ætti auðveldlega að geta hitt bændur á bæði þessu sviði og öðrum og farið yfir málefni þeirra. Ég ætla ekki að elta ólar við ræður hans hér sem mér finnst (Gripið fram í: Var þetta ekki andsvar?) á margan hátt ekki svara verðar.