131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

238. mál
[16:17]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja viðræður við bæjarstjórn Mosfellsbæjar um stofnun framhaldsskóla í sveitarfélaginu með það að markmiði að skólinn taki til starfa haustið 2006.“

Með tillögugerðinni fylgir svohljóðandi greinargerð:

Á síðustu árum hefur fjöldi framhaldsskólanemenda á höfuðborgarsvæðinu aukist mjög líkt og víðast hvar annars staðar á landinu. Á árunum 2000–2003 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum á Íslandi úr 20.332 í 21.901 eða um rúm 7,7% samkvæmt hagtölum frá Hagstofu Íslands. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavík undanskilinni var rétt 11,8% á sama tímabili eða úr 4.593 í 5.135 nemendur. Þessi aukna sókn í menntun er mikið fagnaðarefni en hún leggur stjórnvöldum jafnframt skyldur á herðar í uppbyggingu framhaldsskóla. Skemmst er að minnast þess hve tæpt stóð að allir nýir umsækjendur fengju inni í framhaldsskóla á nýliðnu hausti.

Mosfellsbær er tiltölulega ungt en vaxandi bæjarfélag með hátt í 6.700 íbúa og hlutfall ungs fólks í þeim hópi er hátt. Nú eru þar um 100 manns í hverjum árgangi á framhaldsskólaaldri og margir stærri árgangar á grunnskólaaldri. Engum blöðum er um það að fletta að Mosfellsbær er langstærsta sveitarfélag landsins sem ekki hefur eigin framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn nái 8.000 á næstu fimm árum og verði um 10.000 árið 2012.

Án efa er það nálægðin við Reykjavík sem mestu veldur um það að Mosfellsbær hefur setið eftir í uppbyggingu framhaldsskólakerfisins á undanförnum áratugum. Mosfellsbær fer með um 12% af áætluðum kostnaði við Borgarholtsskóla sem er sá framhaldsskóli í Reykjavík sem er næstur sveitarfélaginu. Almenningssamgöngur milli Mosfellsbæjar og Borgarholts eru hins vegar ekki nógu góðar til að gera Borgarholtsskóla að ákjósanlegum kosti fyrir framhaldsskólanema í Mosfellsbæ, umfram aðra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Það gefur augaleið að sú staðreynd ýtir undir einkabílanotkun þeirra sem þaðan þurfa að sækja framhaldsskóla til nágrannasveitarfélaganna og eykur umferð um Vesturlandsveg á álagstímum og er hann þá engan veginn greiðfær að morgni dags þegar skólar eru að hefjast. Það er svo kapítuli út af fyrir sig hversu mjög er brýnt að bæta samgöngur og umferð í gegnum Mosfellsbæ.

Jafnframt er Borgarholtsskóli, sem var þegar með um 1.000 nemendur skólaárið 2002– 2003, að mörgu leyti sérskóli þótt þar séu almennar bóknámsbrautir í boði. Borgarholtsskóli státar til dæmis af fjölmenntabraut, félagsþjónustubraut, námsbrautum í margmiðlunarhönnun, bílgreinum, málmiðnum og verslunarþjónustu auk þess að sjá um nám fyrir skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum Reykjavíkur. Þetta fjölbreytta námsframboð á tvímælalaust sinn þátt í mikilli aðsókn að skólanum og hefur að öllum líkindum laðað marga til framhaldsnáms sem ella hefðu ekki fundið nám við sitt hæfi.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur nú um nokkurt skeið haft hug á að taka upp viðræður við ríkisvaldið um stofnun framhaldsskóla í bænum eins og fulltrúar hennar greindu frá á fundi með fjárlaganefnd haustið 2002 og aftur 2003. Gert er ráð fyrir framhaldsskóla á aðalskipulagi bæjarins og slíkur skóli mundi vafalaust styrkja innviði sveitarfélagsins verulega.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá bæjarstjóra Mosfellsbæjar í morgun er sveitarfélagið reiðubúið að úthluta landi undir framhaldsskóla. Hefur m.a. verið rætt um svæði í Blikastaðalandi sem næst mörkum við Reykjavíkurborg þannig að hægt væri að bjóða nemendum af nærliggjandi svæðum Reykjavíkur skólavist ef út í það væri farið.

Blómlegt félags- og tómstundastarf byggist jafnan upp í kringum starf einstakra framhaldsskóla sem gefa hverju byggðarlagi um sig tækifæri til að styrkja sérstöðu sína með samstarfi við skólana. Framhaldsskóli í Mosfellsbæ gæti því hæglega þjónað fleirum en heimamönnum ef þar byggðist upp sérhæft nám að einhverju leyti, t.d. á sviði heilsueflingar og ferðaþjónustu sem nú þegar standa sterkum fótum í bæjarfélaginu. Má þar nefna starfsemina á Reykjalundi sem er stóröflug starfsemi og starfar á landsvísu og allar vonir standa til að muni styrkjast og eflast ef eitthvað er. Enn fremur yrði hentugt fyrir íbúa í Grundarhverfi, á Kjalarnesi, á Álfsnesi, í Kjós og nýju hverfi við Úlfarsfell að sækja slíkan skóla vegna nálægðarinnar.

Allt þetta þarf að hafa í huga, en eins og staðan er nú eru þessar byggðir mjög illa settar hvað varðar framhaldsskóla. Það er langt til Reykjavíkur og ekki skipulagðar almenningssamgöngur með þeim hætti að hægt sé að nýta þær á viðhlítandi hátt til að sækja skóla. Einnig er óeðlilegt að nemendur frá Kjalarnesi, Mosfellsbæ og nærliggjandi byggðum fari í heimavistarskóla þegar þeir búa svo nálægt hinum mestu skólahverfum landsins á suðvesturhorninu.

Ef við lítum á mikilvægi skólanna og horfum til þess hver staðan er, þá er t.d. mikið brottfall úr framhaldsskólum á Íslandi sem er mikið áhyggjuefni. Tölur sýna að nálega helmingur fólks á framhaldsskólaaldri lýkur ekki því skólastigi á eðlilegum tíma þrátt fyrir að það hefji þá nám. Eitt af því sem taka verður á til að sporna gegn brottfalli er að unglingum bjóðist sem víðast samfellt nám í heimabyggð a.m.k. til 18 ára aldurs, eða út framhaldsskólatímann eins og hér er gert ráð fyrir.

Við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og sá sem hér stendur, teljum einboðið að Alþingi feli menntamálaráðherra að hefjast nú þegar handa um uppbyggingu framhaldsskóla í svo stóru og vaxandi sveitarfélagi sem Mosfellsbær er með það að markmiði að sá skóli taki til starfa eigi síðar en innan tveggja ára.

Frú forseti. Framhaldsskólinn er á ábyrgð ríkisins og frumkvæðið að byggingu skóla ætti að koma þaðan. Engu að síður er líka ástæða til þess að hvetja heimamenn, sem ég veit að hafa óskað eftir viðræðum um byggingu framhaldsskóla við ríkið, til að ýta á eftir því máli. Þingsályktunartillagan er flutt til að hvetja til þess að menntamálaráðherra hefji nú þegar viðræður við bæjarstjórn Mosfellsbæjar um stofnun framhaldsskóla í því sveitarfélagi.

Það ætti ekki að þurfa að rekja mikilvægi skóla í hverju samfélagi fyrir sig. Til að byggja upp samfélag sem myndar eina einingu er lykilatriði að þar séu skólar hluti af samfélaginu. Það er mjög mikilvægt að skólaganga ungs fólks á aldrinum 16–19 sé sem aðgengilegust, að það geti sótt nám með eðlilegum hætti heiman frá sér og að skólinn sé hluti af hinu almenna og daglega lífi og samfélagi viðkomandi íbúa. Ég tel að þetta sé eitt brýnasta mál fyrir samfélagið í Mosfellsbæ að koma á framhaldsskóla sem allra, allra fyrst í byggðarlaginu. Það treystir samfélagið. Það skapar einingu og eina heild. Samfélag sem ekki hefur skóla a.m.k. út sjálfræðisaldurinn til 18–19 ára er ekki fullkomið samfélag. Þess vegna legg ég þunga áherslu á þetta mál.

Ég ber menntamál ungs fólks mjög fyrir brjósti og að það geti sótt nám heiman að frá sér sem allra lengst. Það ætti að vera markmið. Eitt fyrsta þingmálið sem ég flutti eftir að ég kom á þing var um stofnun framhaldsskóla á Grundarfirði fyrir Snæfellsnes. Um það tókst öflug samstaða á þingi þannig að sl. haust tók til starfa þar framhaldsskóli sem fer í gang nú af miklu meiri krafti en bjartsýnustu aðilar þorðu að vona og hefur gjörbreytt þar viðhorfi, aðstæðum og möguleikum fólks til þess að búa þar með sínu unga fólki á eðlilegan hátt.

Ég bar líka fram fyrirspurn um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð fyrir einum þremur árum. Nú hefur sá gleðilegi atburður gerst að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Það er því ljóst að Alþingi er að sýna þessum málum aukinn skilning og er að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að ungt fólk geti sótt sem lengst nám í heimabyggð, að samfélagið geti styrkst með því að hafa framhaldsskóla innan vébanda sinna. Fyrir vaxandi bæjarfélag eins og Mosfellsbæ sem ríður á að mynda sterka samfélagslega einingu einmitt til að byggja sig þannig upp er að mínu viti og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eitt mikilvægasta málið fyrir íbúa Mosfellsbæjar að þar komi framhaldsskóli. Ríkisvaldið á ekki að vera að heykjast á því að ganga nú þegar til viðræðna um að þetta mál, stofnun framhaldsskóla, geti orðið að raunveruleika og skólinn taki til starfa ekki seinna en haustið 2006.

Frú forseti. Ég tel að ég hafi flutt svo sterk rök fyrir málinu að öllum á þingi ætti að vera ljóst hversu brýnt málið er. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málinu verði vísað til hv. menntamálanefndar og treysti því að hún afgreiði málið bæði fljótt og vel aftur inn til þingsins þannig að samþykkt verði þingsályktunartillaga fyrir þinglok og hægt verði á grundvelli hennar að hefja undirbúning að stofnun framhaldsskóla fyrir Mosfellsbæ eins og hér er lagt til.