131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[16:41]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með 1. flutningsmanni þessa frumvarps að meginástæðan fyrir því að það er flutt hér er að flutningsmenn vilja vekja athygli á því að það vanti upp á í stjórn fiskveiða að menn velti fyrir sér af alvöru hvort ekki væri rétt að stjórna fiskveiðum að einhverju leyti með veiðarfærastýringu eða annarri stýringu en nú er uppi og eingöngu er notuð.

Í 1. gr. segir að við „úthlutun veiðiheimilda og stjórn veiða skal á hverjum tíma taka mið af bestu þekkingu sem til er um afrakstursgetu veiðistofna“. Þessu getur ekki nokkur maður verið ósammála okkur sem flytjum þetta frumvarp, við hljótum að þurfa að miða við þá bestu þekkingu sem við höfum á hverjum tíma um afrakstursgetu veiðistofnanna til að ákvarða með hvaða hætti við ætlum að halda áfram að nýta þá. Það hefur ekki tekist svo björgulega til frá 1983 að byggja upp fiskstofnana við landið með því kvótakerfi sem nú er við lýði og menn hljóta að fara að velta fyrir sér og spyrja spurninga í því sambandi hvernig í ósköpunum standi á því. Hvernig í ósköpunum stendur á því að í yfir 20 ár hefur okkur ekki tekist sem skyldi að byggja upp stofna eins og þorskstofninn og ekki náð að nýta úr honum nema, ja, minna á hverju ári en við gerðum í tugi ára þar á undan? Það sést þegar við lítum á meðalafla áranna þar á undan og jafnvel tuga ára þar á undan. Þrátt fyrir mjög stífa stýringu sem byggir á aflamarkskerfi gengur okkur ekki að byggja stofnana upp. Mér hefur alltaf þótt vanta talsvert á það að við spyrðum okkur gagnrýninna spurninga í því sambandi og segðum: Af hverju gengur þetta svona illa?

Við vitum að það hefur orðið mikil breyting á samsetningu flotans, og hinum hefðbundnu vertíðarbátum svokölluðu hefur fækkað talsvert frá því sem áður var. Ég reikna með að togskipum eða stórum togurum eða skipum sem veiða með botnvörpu eða botnlægum veiðarfærum hafi fjölgað talsvert mikið frá því sem áður var.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á vertíðum í gamla daga var tekinn góður hluti af ársaflanum af vertíðarbátum sem stunduðu dagróðra út frá ákveðnum svæðum á landinu. Svona gekk það fyrir sig ár eftir ár. Þó að auðvitað kæmu fiskileysisár, eins og kallað var, komu önnur ár fljótlega þar á eftir þar sem mikil fiskgengd var og mikil umfram það sem áður hafði verið. Eftir að kvótakerfinu var komið á og þeirri stýringu sem við notum nú virðist okkur ekki ætla að auðnast að byggja upp stofnana eins og var kannski ein af meginástæðunum fyrir því að menn töldu nauðsynlegt að fara í þetta kvótakerfi.

Í 1. gr. segir líka að skoða þurfi „áhrif veiða á einstökum tegundum á viðkomu annarra tegunda“, ekki sé hægt að ákvarða veiði úr einum stofni án þess að taka tillit til hvaða áhrif það hefur á aðra stofna. Það má kannski segja að við höfum á undanförnum árum verið að gera meira af þessu en áður var, en þó kannski ekki nægjanlega því að við heyrum það hjá þeim sem vit telja sig hafa á að menn hafa áhyggjur af loðnuveiðinni þegar við horfum á þorskstofninn og aðra botnlæga stofna, hvort loðnuveiðin gæti verið orðin of mikil. Þar höfum við breytt um veiðarfæri. Í staðinn fyrir að loðnan sé tekin eingöngu í nót eins og áður var taka menn hana nú í flottroll og það þýðir að veiðigeta flotans á loðnu er miklu meiri en hún áður var og menn eru að taka loðnuna allt annars staðar og á allt öðruvísi hátt en áður var gert. Það þýðir að getan til að veiða loðnu hefur aukist verulega og ekki við því að búast að jafnmikið af henni verði eftir í vistkerfinu og áður var, áður en leyft var að veiða hana í flottroll, og hún nýtist þar af leiðandi ekki þessum dýrari stofnum okkar eins og þorskstofninum.

Annað sem við vitum að gerst hefur á þessum tíma og með þessari miklu breytingu á veiðimunstrinu er að veiðislóðir sem áður voru illfærar trollskipum eða togurum eru núna orðnar greiðfærar, getum við sagt, nánast eins og breiðgata í stórborg. Þar sem menn þurftu áður að fara með gát og gátu jafnvel ekki stundað togveiðar eða trollveiðar hefur þeim tekist að jafna botninn, eins og við getum orðað það, með þeim hætti að þar renna menn trollinu yfir nú án þess að hafa nokkrar áhyggjur af festum eða öðru slíku. Þetta veiðarfæri er þó að hafa mikil áhrif á vistkerfið, á botninn og það umhverfi sem fiskurinn hefur verið í. Ég trúi því, og það hljóta allir aðrir að trúa því líka, að slíkar breytingar á umhverfi stofna hljóta að hafa áhrif á viðkomu þeirra, alla vega áhrif á hvar þeir halda sig og hvernig unnt er að veiða þá.

Hér segir einnig að skoða þurfi mismunandi áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins og viðkomu fiskstofna. Við flutningsmenn þessa frumvarps teljum að það hafi í allt of litlum mæli verið gert. Við hljótum að þurfa að reyna að nýta þessa auðlind okkar í eins mikilli sátt við lífríkið og vistkerfi sjávarins og nokkur möguleiki er á. Það þarf ekkert að vera fiskifræðingur eða vísindamaður á sviði hafvísinda, botnvísinda eða einhvers slíks til að gera sér grein fyrir því að hin mikla umferð stórra fisktrolla eins og nú er orðin á veiðislóð hlýtur að hafa mikil áhrif á hana. Getum við leyft okkur að tala um sjálfbæra nýtingu á fiskstofnum þegar við erum að taka kannski uppistöðuna af því sem við erum að veiða í veiðarfæri sem gjörbreyta vistkerfinu sem fiskurinn lifir í? Mér er það til efs að við getum í raun talað þannig. Það er ekki svo að flutningsmenn þessa frumvarps séu að tala um að nú þurfi að fara að banna troll eða eitthvað slíkt til veiða á þorski, það er langt því frá, heldur viljum við með þessu frumvarpi beina því til þeirra sem með hafa að gera að ástæða sé til þess að horfa til fleiri þátta en gert sé nú og að einn af þeim þáttum sé að stýra fiskveiðum í auknum mæli með tilliti til veiðarfæra, með tilliti til þeirra áhrifa sem veiðarfærin hafa á viðkomandi fiskstofn og með tilliti til þeirra áhrifa sem veiðarfærið hefur á botninn og botnflóru.

Nú fer eingöngu fram 1. umr. um þetta frumvarp og að sjálfsögðu reikna ég með því að það fari til sjávarútvegsnefndar fljótlega til umræðu þannig að hægt sé að senda það út til umsagnar. Það á ekkert að vefjast fyrir sjávarútvegsnefndarmönnum að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Þetta yrði þá þrítugasta og fimmta breytingin síðan 1992 ef mér telst rétt til. Við erum vanir því að taka við frumvörpum eða fara í gegnum frumvörp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða svona tvisvar til þrisvar á ári hverju þannig að ég held að það muni ekkert vefjast fyrir okkur nefndarmönnum í sjávarútvegsnefnd að taka þetta frumvarp fyrir og afgreiða það.

Full ástæða er til þess að leggja fram svona frumvarp, vekja spurningar um það hvort við séum á réttri leið og fá hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að velta þeim spurningum fyrir sér með okkur flutningsmönnum frumvarpsins og sjávarútvegsnefndarmönnum.