131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:07]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála því að um sé að ræða annað tveggja, heldur hvort tveggja. Auðvitað eigum við áfram að nota svæðalokanir og veiðibönn og sjálfsagt má beita þeim meira en gert hefur verið fram að þessu, en við þurfum líka að hafa áhrif á heildarálagið og við hljótum að eiga að koma til móts við útgerðarmenn eftir því hvernig þeir ganga um lífríkið, hvað þeir gera.

Hv. þingmaður spurði hvaða vitneskju ætti að nota. Auðvitað notum við þá vitneskju sem við höfum á hverjum tíma. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að það er betra fyrir lífríkið að nota t.d. gildrur eða línu en dregin veiðarfæri. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að sá sem veiðir humar í gildru gengur betur um lífríkið en sá sem veiðir humar í troll. Við gerum samt ekki upp á milli þessara veiðarfæra. Þessi þekking er til staðar í dag. Hvers vegna ekki að nota hana?

Auðvitað eigum við líka að taka tillit til þess hvað menn nota mikla orku, hvað menn sóa mikilli orku, olíu og hvernig menn fara með botninn. Allt þetta eiga menn að nýta sér. En auðvitað verður þeirri vitneskju safnað áfram í gegnum tíðina. Það þýðir ekki að bíða eftir því að hún verði öll til staðar. Það á að nota þá vitneskju sem er til staðar núna til að hafa áhrif á framtíðina og safna viðbótarvitneskju til þess að geta stjórnað þessum hlutum betur.

Þó talað sé um 10% álag, þá er það 10% hámarksálag vegna þess að við viljum fara varlega af stað. Þeir sem meta hve álagið á að vera mikið eiga auðvitað að raða því niður eftir bestu vitneskju á hverjum tíma. Það er ekkert sem segir að það eigi endilega að nota 10% álag. Það er bara hámarkið samkvæmt frumvarpinu.