131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[11:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að nota tækifærið til að koma upp öðru sinni til að vitna um það sem gerst hefur í málinu því að ég hef orðið vitni að atburðarásinni sem einn af þingflokksformönnum. Ég vil staðfesta, fyrst menn voru að ræða áðan um tölvupóst, að það barst beiðni frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur í tölvupósti um að hún mundi óska eftir þessari umræðu í dag og ég fékk ekki betur séð en hann hafi verið sendur á alla þingflokksformenn. Beiðnin barst um kvöldmatarleytið í gær, á milli hálfsjö og hálfátta, ef ég man rétt. Þetta voru tveir tölvupóstar, sá seinni ítrekaði hinn fyrri, þannig að þarna var talað með mjög skýrum hætti.

Það hlýtur að vera ábyrgðarhluti þingflokksformanna stjórnarflokkanna ef þeir hafa ekki komið skilaboðunum áleiðis til varamanna sinna sem mættu á fund þingflokksformanna í morgun. Það er ómögulega hægt að sakast við neina aðra en þá í þessu efni. Þeir hljóta að bera ábyrgð á að skila þessu af sér áfram til réttra aðila ef þeir geta ekki sjálfir mætt á fund þingflokksformanna.

Þetta atvik hlýtur hins vegar að verða til þess að við þingflokksformenn tökum upp umræður við tækifæri um nýjar verklagsreglur hvað varðar svona lagað, að fest verði frekar í sessi með hvaða hætti óskað sé eftir slíkum umræðum. Tölvupóstsformið hugnast mér vel. Það er skriflegt og tímasett eins og sagt var áðan og það getur haft úrslitaþýðingu, því þegar verið er að skera úr um hvaða umræða eigi rétt á sér hefur tíminn oft verið látinn ráða. Sá sem fyrri hefur verið til hefur haft rétt fram yfir hinn. Ég lenti í því núna nýverið þar sem ég hafði reyndar vinninginn, einmitt vegna þess að ég gat vitnað í tímasetningu.

Einnig að ef skipaðir þingflokksformenn geta ekki mætt á fundi með forseta Alþingis að þeir sjái til þess að þeim skilaboðum sem þeir hafa hugsanlega í skilaboðaskjóðum sínum verði komið áfram til varamanna þeirra þannig að við sleppum við að þurfa að standa í óþarfa pexi, ef svo má segja, út af einhverjum formgöllum sem orðið hafa vegna þess að boðleiðir virðast ekki virka innan ákveðinna stjórnmálaflokka.