131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er komin upp allankannaleg staða. Hinu háa Alþingi hefur borist ákall frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins, ákall sem hv. Alþingi virðist ekki ætla að svara.

Hvað gerum við þá, frú forseti? Við sem erum réttkjörnir þingmenn á hinu háa Alþingi, við sem í raun berum ábyrgð á fjárveitingum til reksturs Ríkisútvarpsins, að ógleymdu útvarpsráðinu, hvað gerum við þá?

Í dag er minnst 150 ára verslunarfrelsis á Íslandi. Árið 1843 gaf danski kóngurinn út tilskipun um að endurreisa skyldi Alþingi Íslendinga. Þá fengu karlmenn, reyndar örfáir, 5% íslenskra karlmanna, kosningarrétt. Alla þá öld, alla 19. öldina beittu Íslendingar þeirri aðferð í frelsisbaráttu sinni að skrifa undir bænaskjöl til konungs, áköll og bænaskjöl, eins og réttlausir einstaklingar gera þegar enginn er kosningarrétturinn t.d., þegar enginn er áheyrnarrétturinn, þegar enginn er löggjafarrétturinn.

Það mætti halda, frú forseti, að á því herrans ári 2005, 162 árum eftir að Alþingi Íslendinga var endurreist, að það væri vilji og ætlan þeirra sem nú fara með völd í landinu að færa allt í fyrra horf. Hingað þurfa heilu stéttirnar að …

(Forseti (JóhS): Forseti verður að biðja hv. þingmenn um að halda sig við að ræða um fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Þá spyr ég: Hvernig hyggst forseti Alþingis svara ákalli fréttamanna Ríkisútvarpsins, bænaskjali þeirra um áheyrn á hinu háa Alþingi? Hvernig hyggst hið háa Alþingi bregðast við?