131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:43]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fjarskiptin skipta miklu máli um alla framþróun í okkar íslenska samfélagi. Það gildir jafnt um heimilin, menntastofnanir og fyrirtækin í landinu. Við höfum notið þess, Íslendingar, að það hefur verið mjög hröð uppbygging á sviði fjarskipta sem hefur leitt til mikilla hagsbóta fyrir okkur hér á Íslandi.

Hæstv. forsætisráðherra greindi frá því í skýrslu sinni að í tengslum við sölu á hlutabréfum í Símanum gerum við ráð fyrir því að leggja fyrir Alþingi og samþykkja fjarskiptaáætlun þar sem lagðar verða línur um framþróun og uppbyggingu fjarskiptanna á Íslandi. Með sölu Símans og samþykkt fjarskiptaáætlunar gefst okkur Íslendingum einstakt tækifæri til að ná forskoti á aðrar þjóðir með því að nýta upplýsinga- og fjarskiptatæknina enn betur en nú er gert og auka þannig hagvöxt og hagsæld í landinu með farsælli uppbyggingu. Með metnaðarfullum markmiðum í fjarskiptaáætlun vilja stjórnvöld fyrst og fremst flýta uppbyggingu þjónustu þar sem hún er lökust, þ.e. í strjálbýli, á miðunum og á ferðamannastöðum í landinu.

Það er mikilvægt að halda því til haga að sala Símans er forsenda þess að ná þeim markmiðum sem fram verða sett í fjarskiptaáætlun. Ég get greint frá því í þessari umræðu að meginmarkmiðin í fjarskiptaáætlun verða að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu, að GSM-farsamband verði aðgengilegt á meginþjóðvegum, helstu stofnvegum og fjölförnum ferðamannastöðum sem skiptir mjög miklu máli í viðskiptum á sviði ferðaþjónustunnar, og að allir landsmenn til sjávar og sveita hafi aðgang að gagnvirku stafrænu sjónvarpskerfi.

Það er trú mín að með samþykkt fjarskiptaáætlunar sem væntanlega verður rædd hér á þinginu innan tíðar og framkvæmd hennar í kjölfar sölu Símans getum við styrkt þau tækifæri sem felast í góðum fjarskiptum, góðri menntun og tækniþróun. Þar með sköpum við ímynd Íslands sem lands þar sem fjarskipti eru til fyrirmyndar og styrkjum þannig stöðu landsins í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki.

Við eigum, Íslendingar, að vera óhrædd við að leggja þær meginlínur að hér á Íslandi séu fjarskiptin meðal þess allra besta sem gerist í heiminum. Þannig byggjum við upp samfélag okkar og nýtum þessa tækni. Með sölu Símans og metnaðarfullri áætlun um uppbyggingu á sviði fjarskiptanna eigum við að geta bætt samfélagið langt umfram það sem er í dag.