131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Birgissyni fyrir þetta svar og ræðu hans sem mér finnst mjög mikilvægt að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli hafa setið undir vegna þeirra sjónarmiða sem komu fram fyrr í umræðunni og andsvörum við þá sem hér stendur þar sem henni voru gerð upp mjög annarleg sjónarmið varðandi nákvæmlega sömu atriði og hv. þm. Gunnar Birgisson hefur svo skynsamlega sett hér fram. Mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál eins og ég sagði áðan og reynum að átta okkur á öllum hliðum þess og séum fordómalaus í umræðunni um þau. Síðan er eftir að sjá hvort eitthvað það skýrist í nefndinni, þar sem við eigum bæði sæti, sem hefur áhrif á afstöðuna sem t.d. ég hef í dag.