131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:54]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég var á ferð á Kirkjubæjarklaustri í síðustu sláturtíð og gerði mér þá vel grein fyrir því hve mikið vægi þessi vinnustaður hefur fyrir sveitarfélagið og það fólk sem þar býr. Því átti ég kannski von á að hæstv. landbúnaðarráðherra mundi reyna að taka þetta mál fastari tökum en síðan varð.

Svæðið sem sláturhúsið þjónustaði er eftir því sem ég best veit riðulaust svæði. Því velti ég fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að taka það inn í myndina þegar ákvörðun var tekin um að loka þessu sláturhúsi, þá til verndunar svæðisins vegna þess að öll þessi keyrsla á sláturfé út og suður hlýtur að skapa meiri hættu hvað riðusmit varðar. Er ekki um sérstöðu þarna að ræða varðandi þetta sláturhús og þetta svæði og hefði því ekki verið hægt að taka á úreldingu þessa sláturhúss með öðrum hætti en hinna sem ráðherrann vísaði hér til? Hefði ekki verið hægt að vísa til riðuleysis svæðisins þegar menn voru að velta fyrir sér jafnræði milli sláturhúsa?