131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:56]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Allt á sinn tíma, segir í Predikaranum. Þannig er líka með þennan lánasjóð. Hann var mjög þarfur, gerði eflaust sitt gagn eins og tímarnir voru þá. Þeir tímar eru liðnir og vonandi koma þeir ekki aftur.

Það er eðlileg og sjálfsögð krafa bænda að breyta þessu og það er mjög mikil þörf á því að efla og styrkja Lífeyrissjóð bænda. Við munum taka það mál fyrir hér á dagskrá í dag. Þá rifjast upp fyrir mönnum enn einu sinni hve hörmuleg staða þess sjóðs er. Okkur ber skylda til þess að efla hann. Jafnvel þó að við settum alla þá peninga sem þarna eru inn í sjóðinn mun það ekki duga, það þarf meira til.

Við verðum að styrkja og efla Lífeyrissjóð bænda þannig að hann verði jafnbær við aðra lífeyrissjóði í landinu. Það er hið mikla verkefni sem við höfum.

Fyrir nokkrum árum tókum við búnaðargjaldið til umræðu hér á Alþingi, herra forseti. Þá var það lækkað verulega. Sum okkar vildu ganga lengra. Þá var ekki hljómgrunnur fyrir því. Til allrar hamingju hefur þetta breyst, nú virðist hljómgrunnur fyrir því að leggja þetta niður. Það er sjálfsagt að gera það, og þótt fyrr hefði verið.

Það er á meðal vor, herra forseti, fólk sem á sér þær helstu hugsjónir að hverfa aftur til fornra búskaparhátta. Það fólk harmar þá veröld sem var. En við því er ekkert að gera, tíminn heldur áfram og lífið heldur áfram. Landbúnaðurinn verður að þróast eins og aðrar atvinnugreinar. Hann á sinn möguleika, og allir draumar um að hverfa til þeirra hluta sem löngu eru liðnir eru dæmdir til að mistakast.

Við munum styðja bændur í þeirri kröfu að fella niður þennan sjóð, hætta að skattleggja bændur til þess að greiða niður vexti til þeirra sjálfra. Það er sama og að éta skottið á sjálfum sér. Þeir tímar eru liðnir. Þannig munum við ganga fram, þannig munum við breyta þessu, láta þessa peninga inn í lífeyrissjóðinn. Bændur eiga þá allan rétt á því að keppa á grundvelli um lán og sækja sér lán eins og hverjum sæmir, hver vill og hver telur sig þurfa.