131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:02]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að ráða á héraðsdýralækni til hinnar nýju stofnunar en eins og ég sagði í ræðu minni gat ég ekki séð að tekið væri fram í frumvarpinu að þeim skyldi boðin endurráðning eða ráðning að hinni nýju stofnun, þeim héraðsdýralæknum sem nú eru starfandi, sem verður sagt upp vegna þess að verið er að leggja embætti þeirra niður í núverandi mynd.

Hæstv. ráðherra sagði að uppgangur væri um allt land. (Landbrh.: Nánast, sagði ég.) Ég segi nú bara: Heyr á endemi, frú forseti. Hvar hefur hæstv. ráðherra verið? Ég veit satt að segja að hann veit betur. Því miður er það þannig að stór svæði á landinu eru í mjög alvarlegum vandræðum, sama hvort við lítum á tölur um meðaltekjur fólks, tölur um brottflutning fólks af svæðum, tölur um störf sem verið er að leggja niður af hálfu ríkisins víðs vegar um landið eða annað. Það er ekki hægt að komast að þeirri niðurstöðu að uppgangur sé um allt land, því miður, ég vildi óska að satt væri.