131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:01]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki á mér setið að segja fáein orð einfaldlega vegna þess að mér hættir aldrei að blöskra umræður á Alþingi um landbúnaðinn, því þvílíkt og annað eins sem hér fer fram, eins og umræða um hina aðskiljanlegustu hluti. Menn ræða um að skipta sér af því hvernig bændur sjá fyrir sæðingum á kúm. Mér er sem ég sæi að menn væru í umræðum um hvaða nagla ætti að nota til að negla þök í landinu. (Gripið fram í.) Þetta er alveg með ólíkindum. Það er ekki lengra síðan en 1992 eða 1993 að sérstök framlög voru til að menn gætu búið til haughús á einstökum bæjum. Landbúnaðurinn hefur verið í helgreipum Alþingis í gegnum tíðina. Það er eins og menn ætli aldrei að hætta þessu. Hvað er að gerast hér? Jú, á sama tíma og tekið er úr lögum eitthvað sem bændur hafa sjálfsagt viljað … (Gripið fram í: Bændaforustan?) bændaforustan já, eitthvað sem hún hefur viljað láta setja inn líka til að hafa miðstýringuna í flottu lagi, hún væri uppáskrifuð með lögum, er það sett í samninginn sem gerður var í fyrra sem ég gat ekki skrifað undir á Alþingi, sat hjá, sem ég ætla ekki að fara yfir hér, en hluti af honum var að í staðinn fyrir þetta ætti ríkissjóður að borga 100 millj. á næsta ári til kynbótaverkefna.

Ég vil draga athyglina að því að það er ekki eðlilegt að menn skuli ekki komast að því að hafa einhvern heildarstuðning við bændur og flækja málin. Það á að láta þá sjá um sig sjálfa, þeir eru fullfærir til þess. En í sölum Alþingis virðast menn halda að þeir kunni manna best að stjórna landbúnaðarframleiðslunni. Mér finnst þetta vera svo óskaplega gamall og liðinn tími að við ættum að hafa komist út úr honum fyrir langa löngu. Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti.

Umræðan sem fram fór áðan þegar hæstv. ráðherra var spurður um framleiðslu fólksins sem telur sig geta staðið utan við stuðningskerfi landbúnaðarins var ágæt nema að einu leyti, mér fannst hæstv. ráðherra vera að segja að almennur stuðningur til landbúnaðarmála ætti ekki heima til þess bús sem þarna er um að ræða því það liggur fyrir að nú þegar eru menn að færa lítinn hluta af styrkjum til landbúnaðar út fyrir greiðslumarkið þannig að menn fá styrk á hvern grip. Ég get ekki séð að það sé nein ástæða til þess að gera kröfu um að þeir sem ætla að standa utan greiðslumarkskerfis megi ekki fá þann styrk líka eins og aðrir, t.d. kjötframleiðendur. Mér finnst það ósanngjarnt ef menn ætla að líta þannig á málið.

Ég trúi því hins vegar mátulega að rekstrargrundvöllur sé fyrir þessu. Það er samt hægt að velta því alvarlega fyrir sér hvar menn eru staddir ef það er rétt að það taki 12–15 ár að ná inn fyrir uppkaupum á kvótum í landbúnaði. Ef svo er getur hugsanlega verið að menn séu komnir þarna langt yfir lækinn og jafnvel sé hugsanlegt að einhver framleiðsla án styrkja geti farið að standa undir sér.

Ég harma það aftur eins og ég gerði í fyrra að menn skyldu flýta sér svo að klára búnaðarsamninginn. Ég held að heppilegra hefði verið ef menn hefðu klárað hann í vetur. Vonandi liggja fljótlega fyrir betri upplýsingar um það frammi fyrir hverju við stöndum á næstu árum í alþjóðasamningum um stuðning við landbúnaðinn.

Ég ætla að hafa það með, af því að það er alltaf nauðsynlegt, að ég er ekki á móti því að stutt sé við atvinnulíf í sveitum, landbúnað og annað sem þar fer fram, en mér finnst mikið skorta á að jafnræðis sé gætt við þegna landsins.