131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[14:32]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá skýrslu sem hér er til umræðu. Nefnd menntamálaráðherra hefur að mínu mati unnið þakkarvert starf og það er afar ánægjulegt að innan þessarar nefndar hafi náðst sátt um tiltekna lendingu í einu heitasta pólitíska deilumáli liðinna ára.

Í skýrslu nefndarinnar er lögð áhersla á að tillögur hennar beri að skoða sem eina heild og að þær byggi á heildarsýn á málefni fjölmiðla sem styðst fyrst og fremst við þá reynslu sem Evrópuþjóðir hafa öðlast í þessum málum og þá stefnu sem mótuð hefur verið hjá Evrópuþjóðum á grundvelli þeirrar reynslu. Íslendingar hafa ekki nema að litlu leyti verið þátttakendur í samstarfi Evrópuþjóða á þessu sviði og ég tek undir með nefndinni þegar hún leggur til að mörg þau vandamál sem tengd eru þessum málum og stjórnvöld hér á landi þurfa að glíma við á næstu árum þurfi að leysa á alþjóðavettvangi, t.d. það hvað varðar að finna lausnir viðvíkjandi lögsögu fjölmiðla í stafrænu umhverfi framtíðarinnar. Því er afar mikilvægt að byggja hér á landi upp sérþekkingu og leggja áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir.

Einnig vil ég árétta að sú stefna sem mörkuð er í skýrslunni hefur það að markmiði að tryggja tjáningarfrelsi. Þar er byggt á túlkun Mannréttindadómstólsins í Strassborg á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en af þeirri grein leiðir að ríkinu ber að tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun og standa þannig vörð um að raunverulegt inntak tjáningarfrelsisins sé okkar allra en ekki aðeins þeirra sem fara með efnahagslegt og pólitískt vald. Þetta er mál sem varðar samfélagið allt og snýst um að styrkja og efla grundvöll lýðræðisins í landinu.

Herra forseti. Þær tillögur sem nefndin hefur náð samstöðu um eru í sjö liðum og þær fela í sér að Ríkisútvarpið verði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp með áherslu á sérstöðu þess og skyldur sem fjölmiðils í eigu allra landsmanna.

Þær fela í sér að settar verða reglur sem tryggi

1. gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum,

2. að reglur um leyfisveitingar til rekstrar hljóðvarps og sjónvarps verði teknar til endurskoðunar með það að markmiði að aðgreina ólíka miðla,

3. að eignarhald á fjölmiðlum sem náð hafa ákveðinni útbreiðslu eða hlutdeild á markaði verði bundið takmörkunum með þeim hætti að aðilum verði sett hófleg takmörk um heimilan eignarhluta,

4. að settar verði reglur sem tryggi aukið val neytenda þannig að efnisveitur fái aðgang að ólíkum dreifiveitum,

5. að dreifiveitur fá flutningsrétt á fjölbreyttu efni,

6. að mótaðar verði reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði á fjölmiðlum, og loks

7. að stjórnsýsla á þessu sviði verði einfölduð þannig að málefni fjölmiðla séu sem flest á verksviði eins stjórnvalds sem starfað gæti sjálfstætt og er í tengslum við núverandi Póst- og fjarskiptastofnun.

Samruni fjölmiðla og fjarskipta er að verða að veruleika með stafrænum og jafnvel gagnvirkum sjónvarpssendingum og enginn veit til hvers þær breytingar muni verða fyrir þau fjölmiðlafyrirtæki sem við þekkjum í dag. Það er lykilatriði fyrir stjórnmálamenn að standa vörð um hagsmuni neytenda og samfélagsins í heild andspænis þeirri þróun og það samrýmist ekki hagsmunum samfélagsins að þessi þróun leiði til þess að val neytenda um framboð á fjölmiðlaefni takmarkist af því við hvaða fjarskiptafyrirtæki þeir eiga viðskipti. Þá á ég við að menn þurfi að kaupa t.d. ADSL-þjónustu bæði hjá Og Vodafone og Símanum til að eiga þess kost að horfa jafnt á dagskrá Stöðvar 2 og á enska boltann. Þess vegna eru hugmyndir nefndarinnar um gagnkvæma flutningsskyldu og flutningsrétt dreifiveitna, þ.e. fjarskiptafyrirtækja og efnisveitna, sérstaklega athygliverðar og til þess fallnar að koma í veg fyrir að heimilin í landinu standi frammi fyrir afarkostum á þessum sérlega mikilvæga markaði.

Einnig er mikilvægt að flutningsrétturinn og flutningsskyldan á við um allar íslenskar efnisveitur sem mun auðvelda nýjum aðilum að hasla sér völl á þessu sviði og auka þá með því jafnframt fjölbreytnina í íslensku fjölmiðlaumhverfi.

Þessi þáttur tillagnanna snýr einnig að framtíð Ríkisútvarpsins en ljóst er að dreifikerfi þeirrar stofnunar er að verða úrelt í hinu nýja stafræna umhverfi og nauðsynlegt er að tryggja almannaútvarp landsmanna um land allt. Sú þróun knýr einnig á um að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja stafræna dreifingu fjölmiðla til allra landsmanna en ekki aðeins þeirra liðlega 90% þjóðarinnar sem dreifikerfi fjarskiptafyrirtækjanna mun nú ná til.

Það er því í samræmi við þessar tillögur nefndarinnar sem ákveðið hefur verið í tengslum við væntanlega sölu Símans að búa til fjarskiptasjóð til að efla gagnaflutningskerfi landsins í strjálbýli og tryggja þannig að þjóðin öll muni sitja við sama borð hvað varðar aðgang að fjölbreyttu íslensku fjölmiðlaefni, fyrst og fremst Ríkisútvarpi allra landsmanna.

Herra forseti. Umræður um málefni fjölmiðla hafa verið eitt heitasta deiluefni í íslensku samfélagi undanfarið ár. Meðan þær umræður hafa geisað hefur þróunin á þessum markaði í átt til nýrra tíma haldið áfram og ég held að það sé ekki ofsagt að segja á fleygiferð, og fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækin eru stöðugt að leita nýrra virðisaukandi leiða í starfsemi sinni. Hagnaður af talsímaþjónustu er hverfandi og framtíð fjarskiptareksturs mun liggja í gagnaflutningum og fjölmiðlaefni og öðrum nýjungum sem við höfum enn kannski takmarkaðan möguleika á að meta hverjar í rauninni verða. Þennan veruleika og þessa þróun er nauðsynlegt að hafa í huga í allri þessari umræðu, þar á meðal í umræðunni um sölu Landssímans og stöðu grunnnetsins í því sambandi.

Vegna þessarar þróunar er mikilvægt að horft sé fram á veginn og leitað leiða til að mæta þessum nýju tímum í stað þess að hengja sig á orð og yfirlýsingar sem látnar hafa verið falla í umræðum sem áttu sér stað á öðrum tíma og í öðru umhverfi.

Herra forseti. Þetta svið fjarskipta og fjölmiðlunar krefst fremur en önnur svið fyrst og fremst framsýnna og framsækinna stjórnmálamanna.