131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[14:38]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er nokkurt gleðiefni fyrir þá sem hér stendur að taka nú þátt í umræðu um þessa skýrslu sem fjölmiðlanefndin hefur skilað af sér en eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra var ég ein þeirra fulltrúa sem áttu sæti í nefndinni. Ég viðurkenni það hér að þetta var afar viðamikil vinna, við fórum vítt yfir sviðið, en vinnan var jafnframt fróðleg og gefandi fyrir okkur sem fengum tækifæri til að taka þátt í henni. Nú er það ósk mín að sá fróðleikur sem þessi skýrsla hefur að geyma komist út til almennings og til þeirra sem við þessu öllu eiga að taka, þá ekki síst til stjórnmálamanna, þeirra sem hér í þessum sal sitja. Þess vegna fagna ég umræðunni.

Þegar tekist var á um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar síðasta vor var vinnulagið ekki síður gagnrýnt en innihald málsins. Orð eins og offors, óðagot og óbilgirni voru oftar en ekki þau sem upp úr stóðu í umræðunni og að lokum gafst ríkisstjórnin upp og forustumenn hennar viðurkenndu að það hefði verið rangt af þeim að neyta aflsmunar á Alþingi til að þröngva málinu í gegn í miklum ágreiningi, ágreiningi sem náði ekki síður inn í þeirra eigin raðir. Endirinn varð svo sá sem við þekkjum öll og óþarfi er að dvelja við hann svo nokkru nemi. Nú nægir að segja hér að batnandi mönnum sé best að lifa og rétt að fagna því að ný skýrsla skuli hafa litið dagsins ljós.

Þó að ekki sé ástæða til að dvelja sérstaklega við umræður síðasta vors þykir mér rétt að geta um þau efnisatriði sem ég gerði að umtalsefni í ræðum mínum en þau voru að meginuppistöðu til þrenns konar.

Meginatriðin í ræðum mínum í fyrravor voru í fyrsta lagi efasemdir um að markmiðin um fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum næðust með þeim meðulum sem lögð voru til. Í öðru lagi sannfæring um að gæta þyrfti meðalhófsreglu sem ekki var gætt í frumvörpunum og í þriðja lagi skortur á svigrúmi fyrir umræðuna.

Í máli af þessum toga, máli sem almenningur lætur sig miklu skipta, að ekki sé talað um fjölmiðlana sjálfa, eigendur þeirra og starfsfólk, bera stjórnvöld ákveðna ábyrgð á því hvernig umræðan fer fram. Vilji menn í alvöru ná árangri og endurnýja löggjöf um fjölmiðla, eins og þjóðþing álfunnar hafa verið að gera á undanförnum árum, er nauðsynlegt að leitast við að finna lendingu sem allir eða a.m.k. flestir treysta sér til að búa við.

Skýrslan sem nú liggur á borðum okkar og hefur verið dreift á netinu til þjóðarinnar er í sjálfu sér tilboð um umræðu. Hún er skynsamlegt tilboð til samfélagsins og væri raunar óskandi að stjórnvöld leituðu oftar eftir því við borgarana að þeir tækju þátt í að móta stefnu um tiltekin mál. Ég treysti því, virðulegi forseti, að almenningur sýni áhuga sinn nú í verki, sömuleiðis fræðimenn á sviði fjölmiðla og fjölmiðlarnir sjálfir, og taki þátt í umræðunni, leggi til hennar, auðgi hana og bæti. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar svona tilboð kemur frá stjórnvöldum að sumir miðlar ákveði að hunsa umræðuna, eins og manni sýnist vera vísbendingar uppi um núna. Það er mikilvægt að allir grípi á lofti þá áskorun sem við nú stöndum frammi fyrir og taki þátt.

Hæstv. forseti. Nú hefur það komið fram í umræðum síðustu daga síðan skýrsla nefndarinnar var kynnt að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í nefndinni bókuðu um eitt álitamál sem kemur til með að bera á góma hér og vega kannski nokkuð þungt í dag þar sem við í eftirmiðdaginn ræðum frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Við bókuðum nefnilega um þá ákvörðun hæstv. ráðherra að heimila nefndinni ekki að taka inn á sitt borð Ríkisútvarpið sjálft, flaggskipið í íslenskum fjölmiðlum. Sú bókun kom í beinu framhaldi af bréfi hv. formanna þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna, Margrétar Frímannsdóttur, Ögmundar Jónassonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en þessir hv. þingmenn höfðu skrifað menntamálaráðherra bréf þegar skipað var í nefndina þar sem lýst var þeim skilningi okkar að þörf væri á því að fjalla um málið í heild til að fá heildstæða mynd af fjölmiðlaumhverfinu. Þess vegna lýstu þingflokksformennirnir því yfir að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í nefndinni teldu sig ekki bundna af því að mega ekki fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Í framhaldi af þeirri yfirlýsingu kom sem sagt bókun frá okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni sem lesa má sem fylgiskjal við skýrsluna sjálfa. Ég tel einsýnt að menn þurfi að hafa hana í huga og til hliðsjónar þegar sjónarmið okkar stjórnarandstöðufulltrúanna í nefndinni varðandi Ríkisútvarpið eru skoðuð.

Ég ætla í niðurlagi máls míns, virðulegi forseti, að víkja aðeins að efnisatriðum skýrslunnar.

Nefndinni var gert að skila beinum tillögum ólíkt fyrri nefnd sem skilaði af sér skýrslu fyrir ári, þ.e. 2. apríl 2004. Sú nefnd skilaði af sér ábendingum um ýmsar leiðir sem mögulegar væru í stöðunni, ábendingum sem fengu viðurnefnið „hlaðborð hugmynda“ í umræðunni um þá skýrslu. En tillögurnar okkar í þessari nýju skýrslu er að finna í sjö sjálfstæðum liðum í 7. kafla skýrslunnar og fyrir þá sem hafa gaman af fornum talnavísindum og þekkja dulmagn tölunnar sjö, þá voru nefndarmennirnir sjö og nefndin skilaði af sér hinn 7. apríl. Nóg um það. Kannski er það góðs viti að við skulum vera með þessa heilögu tölu, sjö, í allri þessari umræðu. Ég vona að það eigi eftir að lita umræðuna, hún eigi eftir að vaka yfir okkur.

Tillögur nefndarinnar taka mið af nokkrum meginmarkmiðum sem nefndarmenn komu sér saman um að skiptu mestu varðandi framtíð fjölmiðlunar á Íslandi:

1. fjölbreytni í fjölmiðlun, jafnt pólitísk sem menningarleg fjölbreytni,

2. valfrelsi neytenda, bæði um efni en ekki síður um val á dreifileiðum og þar með dreifiveitum,

3. öflug upplýsingagjöf um hvaðeina er lýtur að þörfum almennings í lýðræðisþjóðfélagi,

4. gagnsæi allrar stjórnsýslu varðandi fjölmiðla, jafnt inni á fjölmiðlunum sjálfum sem í opinberri stjórnsýslu um málefni þeirra.

Megináherslan er þó á kröfuna um gagnsæi eignarhalds. Út frá þessum meginpunktum gekk nefndin við mótun tillagna sinna, gerði sér far um að taka mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað á íslenskum fjölmiðlamarkaði síðustu missirin og einnig af fyrirsjáanlegri þróun í nálægri framtíð. Ástæðunnar fyrir þessum sérstöku útgangspunktum og áherslum er að leita í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem birtur er í skýrslunni og ég tel að verði hluti af því leiðarljósi sem við þurfum að hafa logandi á borðum okkar í þeirri umræðu sem nú fer fram.