131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:00]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þessar spurningar. Hvað varðar lífeyrisskuldbindingarnar þá er það ekki rétt að ekki sé gert ráð fyrir þeim í þeirri fjárhæð sem við erum að tala um varðandi nefskattinn, 13.500 kr., sem gerir einmitt ráð fyrir að sú fjárhæð komi til með að duga m.a. fyrir því að greiða af því skuldabréfi sem lífeyrisskuldbindingarnar eru. Menn veltu því fyrir sér hvort undanskilja ætti lífeyrisskuldbindingarnar en við litum m.a. til þess sem gerðist þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi en þá fylgdu lífeyrisskuldbindingarnar með inn í það félag og við töldum rétt að það sama gilti um Ríkisútvarpið. Það er gert ráð fyrir þeim í þessari fjárhæð, í þeim nefskatti eða fjárhæð sem uppi er núna, 13.500 kr., þannig að það er alveg skýrt að Ríkisútvarpinu sf. ber að standa skil á þeim lífeyrisskuldbindingum sem eru til staðar hjá fyrirtækinu núna.

Síðan er hitt atriðið varðandi útvarpsstjóra. Það er einmitt þetta sem ég vil ekki gera, þ.e. að standa hér og segja hvað hin nýja stjórn eigi að gera og hvað hún eigi ekki að gera. Það er alveg ljóst að þeir starfsmenn sem fyrir eru hjá fyrirtækinu eiga rétt á svipuðum eða sambærilegum störfum og það gildir jafnt um útvarpsstjóra sem aðra menn. Hvað gerist í framhaldinu verður hlutverk hinnar nýju rekstrarstjórnar að ákveða því í framtíðinni mun hún ráða og reka útvarpsstjóra sem æðsta yfirmann fyrirtækisins.