131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:32]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Ég held að hv. þingmaður hafi ekki verið kominn í þingsal þegar ég fór yfir flokksþingsályktun Framsóknarflokksins og hvað menn lögðu áherslu á þar varðandi styrkingu á stöðu Ríkisútvarpsins, en þar var m.a. lögð áhersla á að Ríkisútvarpið væri áfram í þjóðareigu, sjálfstæði þess væri eflt og m.a. yrði stjórnskipulag stofnunarinnar endurskoðað, það væri endurskilgreint og tekið mið af nýju fjölmiðlaumhverfi.

Hvað rekstrarformið varðar verð ég að upplýsa hv. þingmann að ég er svo sannarlega þeirrar skoðunar að það hefði ekki styrkt Ríkisútvarpið til framtíðar að vera áfram opinber ríkisstofnun eins og það hefur verið. Hins vegar má deila um það í hvaða rekstrarformi hefði mátt reka það. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson að því hvort hann sé talsmaður þess að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Ég geng út frá því, herra forseti, að hann hafi viljað halda í það sem ríkisstofnun (Forseti hringir.) sem það hefur verið frá upphafi.