131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:39]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ósköp tekur hv. þingmaður því illa þó að ég lýsi því yfir í þessum ræðustóli að ég hafi sérstaklega borið mig eftir því að kynna mér stefnu Samfylkingarinnar í málefnum Ríkisútvarpsins og ekki getað fundið. Það er ekki rétt með farið hjá hv. þingmanni að í þingmálinu sé að finna tiltekna stefnu heldur eru þar dregnar upp ýmsar leiðir, til að mynda varðandi fjármögnunina, sem skuli skoða í nefnd. Ég benti á það fyrr í andsvari að tvær nefndir hafa verið að störfum sem m.a. hafa fjallað um Ríkisútvarpið.

Varðandi það að draga upp þetta ágæta mál kom það fram í umræðunni, áður en umræða um þingmálið um Ríkisútvarpið byrjaði, að menn gagnrýndu það að samtímis hefðu ekki verið tekin á dagskrá tiltekin frumvörp frá stjórnarandstöðunni, sem líka fjölluðu á einn eða annan hátt um Ríkisútvarpið. Þá kom sú yfirlýsing fram, alla vega frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að hv. þingmenn mundu eftir sem áður ræða það undir þessum lið. Ég gaf mér það meðan ég brá mér af bæ (Forseti hringir.) að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hefðu gert það sama (Forseti hringir.) og hv. þm. Mörður Árnason vitnaði vissulega í þetta skjal í dag.