131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:11]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er ekki sáttur við pólitísk afskipti af útvarpsráði, veit þó að ríkið er pólitískt í eðli sínu þar sem þingmenn eru kosnir pólitískri kosningu og eiginlega ekki annað hægt. Þetta er ríkisútvarp og hlýtur að vera það.

Hv. þingmaður talaði um breytt hugarfar. Spurning mín til hv. þingmanns er sú: Vill hann breyta hugarfarinu með lögum? Hvernig fer maður að því?

Svo býsnaðist hann mikið yfir því að sumir þingmenn, meira að segja stjórnarandstöðunnar, hefðu sagt að það væri slæmt að starfsmenn RÚV væru opinberir starfsmenn og spurði hvað menn ættu nákvæmlega við með því, hvort hægt væri að reka menn skýringalaust. Þá er spurning mín til hv. þingmanns: Af hverju ráða fyrirtæki mann í vinnu? Væntanlega vegna þess að hann gagnast þeim í einhverjum skilningi. Hann er góður. Fyrirtækin vilja hafa manninn í vinnu. Af hverju skyldu þau reka hann? Vegna þess að hann stendur sig ekki eins og til stóð. Þá er hann rekinn, ellegar ekki. Ef þetta er faglegur fréttamaður sem lætur öll sjónarmið koma fram og er vinsæll úti um alla þjóð af því að hann passar sig á því þegar hann t.d. ræðir um eigin kjör að hann lætur önnur sjónarmið koma að. T.d. varðandi fréttastjóra sem er ráðinn og annað slíkt, leyfir hann líka þeim að komast að sem eru hlynntir ráðningu fréttastjórans en talar ekki bara sjálfur um sínar eigin skoðanir ef hann er faglegur og allt slíkt. Af hverju skyldu menn reka hann? Ég skil það ekki. Við hljótum að fá skýringar.