131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:50]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður boðar mikil ótíðindi og hin verstu mál. Nær væri að hv. þingmaður stæði með fleiri félögum sínum í að vinna að því sem þarf að vinna að, að auka framlög til vegamála og það er alveg hægt. Við ákváðum að fresta um 1.900 millj. kr. framkvæmdum árið 2005. Það liggur alveg fyrir að sú frestun hefur ekkert gildi efnahagslega. Það er búið að semja um þær launabreytingar að það kemur enginn í veg fyrir að það verði hér þensla. Það er búið að taka þær ákvarðanir sem valda því að 1.900 millj. samdráttur í vegamálum hefur engin áhrif á verðlagsmál á Íslandi. Því eiga menn að viðurkenna staðreyndir og ég skora á hv. þm. Gunnar Birgisson að koma í lið með mér og við stöndum saman, vinirnir og félagarnir, í að fá þessu hrundið, horfumst í augu við staðreyndirnar, tökum mark á því sem er, stöndum fyrir því að auka (Forseti hringir.) framlög til vegamála á árinu 2005.