131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:31]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samfylkingin lagði til skattalækkanir, já. En í þeirri umræðu sem fór fram um skattalækkanirnar þá kom það mjög skýrt fram að menn vildu að þeim yrði raðað niður eftir því hvernig áraði í samfélaginu. Ég margtók það fram í þeim ræðum sem ég hélt hér um þetta mál í vetur að ég teldi að það ætti að huga að því þegar ákveðið væri hvenær þær kæmu til framkvæmda og að það hefði verið skynsamlegt frá hendi ríkisstjórnarinnar að lýsa því yfir að hverju hún stefndi hvað þetta varðaði en ekki að negla það niður með lagasetningu þannig að engu væri hægt að breyta ef spennan yrði of mikil í samfélaginu. Mér finnst að það hefði kannski verið heiðarlegra ef menn hefðu komið fram og sagt frá því að í tengslum við þessar skattalækkanir ætti að halda áfram að skera niður í vegamálum eins og hér liggur nú fyrir þannig að menn hefðu getað haft þá umræðu til þess að bera saman hvað væri nú skynsamlegt og hvað menn vildu gera.

Ég tel að við hefðum farið varlegar — ég ætla alla vega að vona það — ef samfylkingarmenn hefðu ráðið í sölum Alþingis og borið ábyrgð á stjórn landsins. Þá ætla ég alla vega að vona að menn hefðu farið varlegar hvað þetta varðar heldur en búið er að gera núna. Hér hafa menn algerlega neglt þetta niður með lögum og það verður tæplega tekið til baka. Ég ímynda mér a.m.k. að það verði erfið spor fyrir ýmsa þingmenn stjórnarliðanna að mæta hér fyrir næstu kosningar ef það þyrfti að draga úr spennu til þess að gera breytingar á lögum til að draga úr eða fella niður skattalækkanirnar sem þeir lögfestu í vetur.