131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:41]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að menn skuli vera að skylmast um stærstu vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þá er það nú bara svo að ágætir stjórnarandstæðingar taka undir með borgaryfirvöldum og vilja ekki hlusta á þá staðreynd sem blasir við að Sundabrautin er búin að vera í mikilli biðstöðu núna um langan tíma vegna þess að borgaryfirvöld vildu byggja brú. Það er staðreyndin. Þess vegna hafa þessar tafir orðið á Sundabrautinni. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Hvað Keflavíkurflugvöll áhrærir þá er þetta auðvitað seinni tíma mál. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við eigum ekki að eyða tíma í að ræða um hann. Það er búið að ákveða að hann verði hér næstu 20 ár. Svo hefur tækninni fleygt fram og við vitum ekkert hvað morgundagurinn í flugmálum ber í skauti sér. Svo ör er tækniþróunin í þessum málum.