131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:51]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki hvers vegna hv. þingmaður er svo viðkvæmur fyrir því hvar miðbær Reykjavíkur er. Hann er einfaldlega kominn upp í Mjódd og ég sé ekkert athugavert við að miðbær eða miðdepill Reykjavíkur sé þar. Fjöldi manns kemur aldrei út á þetta útnes hér nema til að fara í samgöngur og mæta á Alþingi.

Þar af leiðandi finnst mér ekki meginatriði í þessu máli að fara að selja og hafa stóran gróða af því að byggja í þessari mýri. Það var alveg rétt, auðvitað hefur verið grábölvað að sumu leyti að hafa flugvöllinn þarna og byggja hann svona upp — en það er búið að því. Því að fara að draga hann í burtu og moka hann upp úr mýrinni til þess að setja hann einhvers staðar annars staðar? Ég sé engan tilgang með því. Fyrir utan það að ég sé svo sem ekkert sérstakt hjartfólgið í því að miðbærinn þurfi endilega að vera fyrir alla hér — Mjóddin, Grafarvogurinn og þess vegna Rauðavatnssvæðið eru prýðilegir staðir í þessu samhengi.