131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:42]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um aðalskipulag Reykjavíkur er hv. þingmanni Reykvíkinga, Guðmundi Hallvarðssyni, það að segja að það gildir ekki til 2024 um flugvöllinn, heldur er gert ráð fyrir því að hann verði í Vatnsmýrinni til 2016. Þá er að vísu reiknað með því að menn gætu haldið honum áfram á einni braut en samgönguráðherra og flugmálastjóri hafa lýst því yfir að það sé ómögulegt og því mun hann ljúka starfsemi sinni eftir þessi litlu 11 ár, í síðasta lagi, hér í Reykjavík.

Þá er sömuleiðis rétt að vekja athygli hv. alþingismanns Guðmundar Hallvarðssonar á því að það er sjónarmið mitt og ég hef sett það fram í ræðu að það sé hreinn hrepparígur að tala um Keflavík og Reykjavík eins og það séu staðir hvor í sinni heimsálfunni. Þetta er eitt atvinnusvæði. Við getum skipt með okkur verkum, fólk getur búið hér og unnið í Keflavík eða búið í Keflavík og unnið hér eftir atvikum. Ég sé ekkert eftir þeim störfum sem við erum að flytja upp á Grundartanga eða flytjum til Keflavíkur. Ég held að það efli bara og styrki allt svæðið.

Hvað skipulagsþáttinn varðar á höfuðborgarsvæðinu — þessi gagnrýni á skipulagsmálin hlýtur þá líka að beinast að Gunnari Birgissyni, Ásdísi Höllu Bragadóttur og ýmsum öðrum forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins hér í nágrannasveitarfélögunum — held ég að það lýsi því bara að við erum með þessi mál í röngum farvegi. Fjármagn til þjóðvega í þéttbýli á ekki að vera hjá samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni. Það á að vera hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og þau eiga síðan sjálf eftir sínum vilja og sínum ráðum að útfæra það með hvaða hætti þau vilja verja fjármununum og hvar þau vilja láta vegina vera innan sinna sveitarfélaga. Það er alveg furðulegt að þingmenn eigi að koma utan af landi, gerast hér samgönguráðherrar og segja okkur í Reykjavík, eða í Hafnarfirði eins og umræðurnar voru þar og í ýmsum öðrum sveitarfélögum, hvar vegirnir í sveitarfélögum okkar eigi að liggja og hvar ekki. (GHall: … Sundabraut …)

Það hlýtur að vera málefni okkar hér í Reykjavík (Forseti hringir.) en ekki samgönguráðherrans, og fjármagnið á þess vegna að fara hingað.