131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:19]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þriðja sjálfstæðismanninum fyrir það að koma hér í andsvör við mig í þessari umræðu.

Hv. þingmaður lætur eins og ég sé að gera lítið úr vegaframkvæmdum og samgöngumálum á landsbyggðinni. Ég er alls ekki að gera það. Ég lýsti því hér yfir að auðvitað eru samgöngumál á landsbyggðinni mjög mikilvæg fyrir þá sem þar búa. Ég geri alls ekkert lítið úr því og skil alveg þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá landsbyggðarmönnum hvað þetta varðar.

Ég hef eingöngu verið að benda á það að meiri hluti fjármagns til nýframkvæmda í vegamálum á síðustu árum eða áratugum hefur runnið til landsbyggðarinnar en ekki hingað inn á Stór-Reykjavíkursvæðið. Þegar ég tala um Stór-Reykjavíkursvæðið tala ég bara um það svæði sem ég er alinn upp við að skilgreina sem slíkt, það eru Reykjavík og nágrannasveitarfélögin, þ.e. Reykjavíkurkjördæmin tvö og Suðvesturkjördæmið. (Forseti hringir.)