131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:11]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að halda aðra ræðu mína um þessi mál í dag. Ég varð uppiskroppa með tíma þegar ég var kominn á flug í fyrri ræðunni og ætla nú að reyna að halda fluginu áfram þaðan sem frá var horfið.

Ég var þar staddur í málflutningi mínum að ég var að fjalla um svokallaðan Suðurstrandarveg, sem lofað hafði verið með miklum fagurgala fyrir síðustu alþingiskosningar og allir héldu að fara ætti í af fullum krafti. Ég lýsti yfir óánægju minni með að hætt hefði verið við þennan veg, sem liggur um Suðurströnd Reykjanesskagans á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Reyndar er byrjað að leggja smábút við Grindavík og einhverjar framkvæmdir eru líka fyrirhugaðar í Þorlákshöfn en síðan ekki söguna meir. Þetta er í raun mjög slæmt mál, finnst mér. Það var allt tilbúið í þessar framkvæmdir, búið að hanna þetta mannvirki og undirbúa gerð þess og lá fyrir samþykki frá Skipulagsstofnun. Ekki var annað að sjá en að þessi vegagerð yrði nú loksins að veruleika, framkvæmd sem þingmenn hafa talað um í mörg ár, þingmenn Suðurlandskjördæmis á sínum tíma og núna þingmenn Suðurkjördæmis. Það var rætt um, í tengslum við stóru kjördæmasameininguna nú síðast, að þessi vegur yrði lykillinn að því að sameina gamla Reykjaneskjördæmið við Suðurland. Ég hygg að þessi vegur hefði verið skynsamlegt mannvirki, ekki síst með tilliti til ferðamennsku.

Ég hef verið hrifinn af þessum vegi. Ég fór hann reyndar í fyrsta sinn fyrir tveimur og hálfu ári en allar götur síðan hef ég verið mjög heillaður af þessari leið, þykir þetta afskaplega falleg leið og merkileg fyrir margra hluta sakir. Ég sé fyrir mér að þessi vegur geti opnað á mikla möguleika, ekki síst í tengslum við ferðamennsku en einnig í tengslum við samgöngur á milli Suðurlandsundirlendisins og byggðar á Reykjanesi. Einkum og sér í lagi hafa mér hugnast möguleikarnir hvað varðar ferðamennsku, þ.e. að góður vegur þarna hefði getað opnað möguleika á að flytja ferðamenn beint frá Keflavík suður á Reykjanes, áfram gegnum Grindavík austur á bóginn og inn á náttúruperlurnar sem við höfum á Suðurlandi, jafnvel út í Vestmannaeyjar og í gegnum Þorlákshöfn. Þannig hefðum við opnað nýja, sterka og góða möguleika. Því miður er vegurinn mjög slæmur í dag. Þess vegna er aðkallandi að hann verði bættur og það verður best gert með nýjum vegi.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að fara á í vegabætur á Hellisheiði og alls ekki ætla ég að fara að lasta það, alls ekki, það má enginn skilja orð mín á þann hátt. Ég hefði alveg verið tilbúinn til að hlusta á einhver rök fyrir því að fresta Suðurstrandarveginum og setja peninga í Hellisheiðina. Ég er gersamlega búinn að fá upp í kok af þeim ömurlegu umferðarslysum sem við höfum orðið vitni að á Hellisheiði á undanförnum missirum. Þarna hafa orðið allt of mörg slys. Það virðist ekkert lát vera þar á. Bara nú í vetur höfum við því miður þurft að taka við fréttum af dauðaslysum og alvarlegum bílslysum. Reynsla okkar af tvöföldun Reykjanesbrautar og af Hvalfjarðargöngunum, sem hafa stytt okkur leiðina á hættulegum vegi fyrir Hvalfjörð, hafa fært mér heim sanninn um að vegabætur hafa mjög mikið að segja þegar slysahætta er annars vegar. Ég er alveg sannfærður um að Hvalfjarðargöngin eru nú þegar búin að spara ótal mannslíf og meiðsli á fólki. Tvöföldun Reykjanesbrautar sömuleiðis, þótt sá kafli sem hefur verið tvöfaldaður hafi nú kannski ekki verið lengi, þá hygg ég að séu komnar fram óyggjandi sannanir í þá veru að sú tvöföldun hafi skilað auknu umferðaröryggi á þeirri leið og það sé fyllilega kominn tími til að laga veginn yfir Hellisheiði, breikka hann, jafnvel íhuga að leggja þar hreinlega veg svipaðan og Reykjanesbrautina, með lýsingu og öllu saman.

En ég hefði viljað, virðulegi forseti, að við tækjum umræðu um þessa hluti, að samgönguráðherra kæmi hér upp í ræðustól og talaði um allt þetta af hreinskilni og færði fyrir því rök og færi í rökræður við okkur þingmenn um þessa hluti, ekki að þetta sé gert eins og nú virðist vera, að einhvern veginn er verið að læðupokast með þetta, pukrast með þetta, humma fram af sér og þegja í hel. Ég hygg að það sé ekki rétta leiðin. Ég reikna með að fólk til að mynda í Þorlákshöfn og líka í Grindavík sé afskaplega óhresst með þessi vinnubrögð.

Annað sem hefur verið mjög athyglisvert í dag er að verða vitni að því að það virðist vera komin upp mikil misklíð í Sjálfstæðisflokknum, bæði um þá vegáætlun sem nú liggur fyrir og einnig um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með þeirri umræðu. Hér hafa hnefar nánast verið á lofti og menn farið mikinn og mæst hér stálin stinn. Þetta kom mér dálítið á óvart, því ég las í dag viðtal við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á vef Bæjarins besta klukkan þrjú í dag. Þar segir hann að þessi áætlun hæstv. samgönguráðherra, tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun, hafi verið lögð fyrir báða þingflokkana, stjórnarflokkana, og hún samþykkt þar. En svo koma hingað tveir stjórnarþingmenn og segjast hreinlega vera á móti þeim tillögum sem eru í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og síðan hv. þm. Gunnar Birgisson.

Þarna er eitthvað á ferðinni sem við eigum vonandi eftir að heyra betri skýringar á. Mér sýnist það eftir umræður dagsins að framtíð Reykjavíkurflugvallar geti orðið mjög heitt mál á næstu missirum og sennilega eitt af helstu kosningamálum í komandi borgarstjórnarkosningum sem verða eftir rétt rúmlega ár. Ekki er annað að heyra, bæði á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og einnig á þingmönnum Samfylkingarinnar. Mér heyrist að þar sé líka hver höndin upp á móti annarri þegar kemur að umræðum um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Nóg um það í bili.

Mig langar aðeins til að lokum, af því tími minn er að verða búinn, að lýsa yfir vonbrigðum með að hæstv. samgönguráðherra skuli ekki hafa sagt neitt um Hvalfjarðargöngin og framtíð þeirra. Ég sakna þess hve lítil viðbrögð virðast vera frá stjórnarliðum varðandi tillögu sem ég hef komið með hér í þinginu um að virðisaukaskattur á veggjöld í göngin verði felldur niður. Það er lítil aðgerð sem ætti ekki að kosta ríkissjóð mikla peninga og að ég hygg mundi skila sér aftur til baka í formi aukinna skatttekna, vegna þess að lægra gjald í göngin, sem eru náttúrlega gríðarlega gott mannvirki og hafa skilað miklu, virkar nánast eins og vítamínsprauta fyrir hagvöxt, ekki síst á svæðinu norðan Hvalfjarðar. Það er ég alveg sannfærður um og hefur í rauninni verið sannað með ágætri skýrslu sem Vífill Karlsson hagfræðingur gaf út fyrr í vetur.

Ég læt máli mínu lokið um þessi atriði í þetta skipti. (Forseti hringir.) Ég reikna með að hér verði áfram fjörugar umræður þegar þingsályktunartillagan kemur til seinni umræðu.