131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:28]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samgönguáætlunin liggur fyrir hvað varðar framlög til þessara vegaflokka sem hv. þingmaður nefndi og það eru ekki áform um, samkvæmt áætluninni, að leggja til hærri fjárhæðir. Það er alveg ljóst eins og fram kom hjá hv. þingmanni að þar er mjög margt verkið að vinna og nauðsynlegt að fá aukna fjármuni til þess í framtíðinni. Þær áherslur sem við erum að leggja eru þær að reyna að ná framkvæmdum þar sem umferðin er mest, og álagið, og mestu ástæðurnar til þess vegna mikillar umferðar að bæta umferðaröryggi. Það er þess vegna sem við getum því miður ekki lagt meiri fjármuni til þessara tilgreindu vegaflokka. Tíminn líður og vonandi verður hægt að bæta úr því þegar fram líða stundir.