131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:10]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Forseta er það fullkunnugt að ósk mín um þessa umræðu tengdist ekki Símanum. Hún var lögð fram löngu fyrr og það var ákvörðun forseta að hengja þessa umræðu á Símann. Það að tengja það saman að hæstv. forsætisráðherra gæfi hér skýrslu er algerlega fráleitt. Við erum að tala um störf einkavæðingarnefndar og þau vinnubrögð sem þar hafa verið stunduð. Við erum að tala um að það gilda engar lagareglur um störf einkavæðingarnefndar. Það er mikilvægt að hreinsa andrúmsloftið þegar verið er að selja almannaeigur og það er mikilvægt að menn treysti sér til að taka þátt í þessari umræðu, treysti sér til að hreinsa andrúmsloftið en skýli sér ekki á bak við orðræðu um að menn séu með gróusögur, uppspunnar sögur o.s.frv. Það gengur ekki á hinu háa Alþingi að menn geti valið um það hvort þeir taki þátt í þessari umræðu eða ekki.

Þingið var búið að samþykkja þessa umræðu í tvígang en hæstv. forsætisráðherra bar þau tíðindi til þess sem hér stendur að (Forseti hringir.) hann hafi ekki haft neitt um málið að segja. Það eru skýringar sem ekki geta gengið á hinu háa Alþingi (Forseti hringir.) því það er hlutverk forsætisráðherra og ráðherra í ríkisstjórn að svara þinginu og þingmönnum þegar þeir vilja ræða við þá um tiltekna hluti.

(Forseti (HBl): Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann taki skýringar og upplýsingar forseta gildar. Þessi umræða sem hv. þingmaður talar um var aldrei samþykkt af þinginu. Það var ákveðið að hæstv. forsætisráðherra …)

Virðulegi forseti.

(Forseti (HBl): Ég hef ekki …)

Virðulegi forseti. Ég hef hér orðið. (Forseti hringir.) Þú ert sífellt, sí og æ, að grípa fram í fyrir þingmönnum, virðulegi forseti. Þetta gengur ekki hér, þetta virðist í reynd vera bara ritskoðun á hinu háa Alþingi. Forseti er sífellt berjandi í bjölluna meðan hv. þingmenn hafa orðið og eiga í erfiðleikum með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna hávaða í hæstv. forseta. Hvernig á að halda uppi umræðum á hinu háa Alþingi? Í hvert sinn sem einhver óþægileg (Forseti hringir.) umræða hefst hefur forseti upp raust sína (Forseti hringir.) og lemur bjölluna endalaust.