131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:16]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 1995 var flutt tillaga til þingsályktunar um umboðsmenn sjúklinga. Flutningsmenn voru hv. þáverandi þingmenn Ásta B. Þorsteinsdóttir og Sighvatur Björgvinsson og hv. þingmenn Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Guðmundur Árni Stefánsson. Þingsályktunartillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðningu umboðsmanna sjúklinga að öllum stærri sjúkrahúsum og í hverju heilsugæsluumdæmi sem gæti hagsmuna og réttinda sjúklinga.“

Hlutverk umboðsmanna sjúklinga átti að vera, með leyfi forseta: „að gæta þess að fullt tillit tekið til réttinda, hagsmuna og þarfa sjúklinga, að fylgjast með því að sjúklingum sé ekki mismunað og jafnræðis sé gætt, að taka við kvörtunum, meta þær og aðstoða sjúklinga við að koma þeim á framfæri, að stuðla að því að umhverfi á sjúkrastofnunum sé vinsamlegt og betri þjónustu þeirra og að leysa samskiptavanda og deilumál. Umboðsmenn sjúklinga gætu haft afskipti af eða milligöngu um mál er varða samskipti sjúklinga við alla starfshópa sjúkrastofnana. Þeir gætu einnig, að höfðu samráði við sjúkling eða forráðamann sjúklings, ef um barn er að ræða, vísað málum til annarra aðila, svo sem siðanefnda sjúkrahúsa, læknaráða, yfirmanna lækninga- og hjúkrunarsviða eða annarra sem hafa með málefni sjúklinga að gera. Umboðsmenn gætu verið tengiliðir milli sjúklings og fjölskyldu hans og starfsfólks og stjórnenda sjúkrastofnana hvað varðar kvartanir um þjónustu og hugsanlega lögsókn.“

Málinu var fylgt eftir nokkrum sinnum á Alþingi með fyrirspurnum og umræðum. Á þeim tíma tók þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, vel undir að það kæmi í lög um heilbrigðisþjónustu eða réttindi sjúklinga að embætti umboðsmanna sjúklinga yrði sett á laggirnar. Af því varð þó ekki nema að Ingibjörg Pálmadóttir var um tíma umboðsmaður sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi en vegna fjárskorts að manni skilst var sú staða skorin niður og lítið hefur heyrst um hvernig starfið reyndist.

Þeir sjúklingar sem verða fyrir læknamistökum eiga í fá hús að venda og finnst í mörgum tilvikum að ekki sé tekið rétt á málum þeirra. Má m.a. nefna að Lífsvog, samtök sjúklinga sem hafa orðið fyrir læknamistökum, hafa fengið um 4–5 þúsund erindi til sín á sl. tíu árum. Þörfin er því til staðar og jafnframt hafa borist mjög margar kvartanir til landlæknisembættis. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver voru verkefni fulltrúa sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi? Hvernig reyndist starf hans og hvers vegna var það lagt niður? Hyggst ráðherra beita sér fyrir stofnun sambærilegra starfa í heilsugæsluumdæmum?