131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Innheimta meðlaga.

689. mál
[15:32]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2001 beindi ég fyrirspurn til þáverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, um það hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir lagabreytingu sem tryggði betur en nú er að úrskurði um greiðslu á tvöföldu meðlagi yrði framfylgt. Hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra svaraði því til að hún mundi leita til réttarfarsnefndar um það hvort styrkja mætti lög nr. 90/1989, um aðför, til að einfalda innheimtu samkvæmt úrskurði sýslumanns á grundvelli barnalaga, nr. 20/1992, um aukin meðlög, sérframlög og menntunarframlög og leita leiða til að auðvelda þeim foreldrum þar sem um slíka úrskurði hefði verið að ræða hjá sýslumanni að innheimta viðkomandi meðlög. Það eru því miður mýmörg dæmi þess að feður, því í langflestum tilfellum hafa feður fengið þann úrskurð að greiða skuli aukin meðlög, hafi ekki staðið við slíkar greiðslur og einstæðar mæður hafa ekki séð sér fært að ráða sér lögfræðing eða sækja þetta með fulltingi þeirra, oft vegna mjög bágrar fjárhagsstöðu.

Réttarfarsnefnd sendi dóms- og kirkjumálaráðuneyti svar sitt í bréfi, næstum ári eftir að fyrirspurnin var borin fram, með leyfi forseta:

„Með bréfi yðar 6. mars sl. var réttarfarsnefnd falið að kanna hvort og þá hvernig unnt væri að breyta lögum nr. 90/1989, um aðför, til að einfalda innheimtu samkvæmt úrskurði sýslumanna á grundvelli barnalaga nr. 20/1992, um aukin meðlög, sérframlög og menntunarframlög. Nefndin hefur tekið þetta erindi til skoðunar og er álit hennar eftirfarandi:

Réttarfarsnefnd leyfir sér að ganga út frá því að ráða megi af þessum gögnum, þ.e. þeim gögnum sem voru við fyrirspurnina, að hverju erindi þeirra lýtur nánar. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, samanber 24. gr. barnalaga, er heimilt án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar að gera fjárnám fyrir þeim meðlagsgreiðslum sem um ræðir í erindi yðar. Með þessu nýtur krefjandi meðlags þess réttarfarshagræðis sem frekast getur almennt staðið til boða í núgildandi lögum.“

Niðurstaða réttarfarsnefndar er að ekki sé hægt að breyta lögum um aðför til að auðvelda innheimtuna en hægt sé að breyta ákvæðum laga nr. 54/1971 þannig að Innheimtustofnun sveitarfélaga yrði ekki aðeins heimilt að taka að sér innheimtu þeirra krafna sem henni er í dag, heldur skylt ef eftir því væri leitað, svo og fella niður áskilnað um að hún geri þetta gegn greiðslu. Fyrirspurn mín til ráðherra er: Mun hann beita sér fyrir því að þetta verði gert?