131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:55]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hann notaði ekki orðið „ívilnandi“. Það gerði ég vegna þess að með því að leiða í lög þá breytingu sem hér er lagt til að gera þá er það í mínum huga ívilnandi, sérstaklega hvað varðar kostnað fyrir útgerðirnar. Það hlýtur alltaf að verða minni kostnaður af því að þurfa ekki að velta því fyrir sér að halda meðafla sér eða að reyna að skilja hann frá öðrum afla meðan honum er komið um borð í skipið, heldur sé hægt að fara í einhverja sýnatöku síðar meir við löndun.

Ég sakna þess helst hér, við lok umræðunnar, að hæstv. ráðherra svari til um reglurnar sem hann á að setja eða ætlar að setja miðað við það að 1. gr. frumvarpsins verði að lögum, um að móttakandi afla eða vigtarleyfishafi — það er spurning hvort ekki sé alltaf um vigtarleyfishafa að ræða, móttakandi hlýtur alltaf að þurfa að hafa leyfi til að vigta — taki við þessu í gegnum einhverja flæðivog og þurfi síðan að fara í gegnum þetta og taka sýni.

Ég var að leita eftir því að ráðherrann svaraði spurningunni: Hvers konar sýnataka er þetta og hvers konar útreikningar á grundvelli sýnatökunnar? Það skiptir talsvert miklu máli, upp á að reyna að gera sér grein fyrir því hver aflinn er og hvaða andlag þurfi að koma á móti honum í kvóta, hver sýnatökukvöðin verður. Erum við að tala um að fara þurfi í gegnum 5% eða 1% eða 0,5% prósent aflans? Hvað er átt við með sýnatöku, hver mörg sýni, hve oft úr afla, hve oft miðað við tonnafjölda og hvernig skal reikna það í kvóta eða sem meðafla? Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur hvort þær reglur verða tilbúnar þegar við förum í þetta í nefndinni.