131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:12]

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 255, sem er 244. mál, um könnun á viðhorfum og væntingum til stjórnmálaþátttöku, áhrifa og valda kvenna.

Útgangspunktur málsins eða sýnin sem er á bak við það er sú að jafnræði sé með körlum og konum á vettvangi stjórnmálanna sem snúist fyrst og fremst um það, eins og á öðrum sviðum samfélagsins, að samfélaginu nýtist sá auður sem býr í krafti kvenna. Það ríkir nefnilega í orði almenn sátt um það í íslensku samfélagi að það sé bæði eðlilegt og sanngjarnt að konur og karlar komi jafnt að allri stefnumótun og ákvarðanatöku og komi jafnt að bæði öllum áhrifum og stöðu og völdum í íslensku samfélagi. Raunin er hins vegar önnur og eru Íslendingar vel meðvitaðir um það ef marka má Gallup-könnun sem gerð var haustið 2003. Þar kom fram að tæplega 84% þeirra sem voru spurðir töldu stöðu karla vera mun betri en stöðu kvenna í íslensku samfélagi.

Á vettvangi stjórnmálanna hefur miðað mjög hægt við að ná því markmiði að tryggja jöfn lýðréttindi kvenna og karla og hefur miðað mun hægar á Íslandi en hjá nánustu frændþjóðum okkar, en þær frændþjóðir hafa líka í mun ríkara mæli en hér beitt tilteknum úrræðum, eins og kynjakvótum og fléttulistum til þess að tryggja aukinn hlut kvenna til hagsbóta fyrir samfélagið á hverjum stað. Svo sýna tölulegar og kyngreindar upplýsingar og staðreyndir svart á hvítu hver staða kvenna er og þær sýna afturför á ákveðnum sviðum og má segja að þær veki ákveðinn ugg um það hvert stefni.

Við höfum annars vegar upplýsingar sem sýna einar og sér mjög sterka stöðu kvenna í íslensku samfélagi og mjög þýðingarmikla stöðu kvenna í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Það eru marktækt fleiri konur en karlar sem ljúka námi í framhaldsskólum, sérskólum og háskólum þar sem hlutur kvenna undanfarin ár hefur verið yfir 60%. Það má því með sanni segja að menntun kvenna vegi mun þyngra fyrir mannauðinn, sem er líka talinn grunnurinn að samkeppnishæfni þjóðarinnar, en menntun karla.

Við þekkjum það líka úr tölfræðinni að íslenskar konur eiga hlutfallslega næstflest börn allra kvenna í Evrópu. Barneignir eru og verða ráðandi þáttur fyrir efnahagslega afkomu þjóða vegna þeirrar þýðingar sem þær hafa fyrir aldurssamsetningu þjóðarinnar. Á hinn bóginn er atvinnuþátttaka kvenna einna mest hér á landi af öllum OECD-ríkjunum og nær heilum 83%. Líka er vert að benda á að enn er ekki, a.m.k. svo nokkru nemi, hægt að merkja það hér að konur á Íslandi velji að eiga ekki börn til að geta óhindrað einbeitt sér að því að nýta menntun sína og ná frama í starfi, en það er einmitt orðið verulegt áhyggjuefni í sumum nágrannalöndum okkar.

Þær tölur og tölulegu upplýsingar sem ég hef farið yfir sýna hve staða kvenna er sterk og þýðingarmikil fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Svo höfum við aðrar tölulegar upplýsingar og staðreyndir sem sýna hve þessar sömu konur standa illa gagnvart áhrifum og völdum í íslensku samfélagi. Þar eru m.a. tölur um fjölda kvenna innan stjórnsýslunnar þar sem aðeins tveir ráðuneytisstjórar af 15 eru konur og aðeins 15 deildarstjórar af 60 eru konur. Meðaltalshlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneyta aðeins um 30%. Engin kona er forstjóri eða stjórnarformaður í 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum eða 10 stærstu fjármálafyrirtækjunum. Í 50 stærstu íslensku fyrirtækjunum er aðeins einn kvenforstjóri og einn kvenstjórnarmaður. Svona má lengi telja sem sýnir veika stöðu eða rýran hlut kvenna. Síðast en ekki síst ef við skoðum konur í sveitarstjórnum þá var hlutur þeirra 2002 31,1% sem var þó 3% fjölgun frá kosningunum 1998, en konum fækkaði hins vegar á Alþingi í kosningunum 2003 úr 36,5% við lok kjörtímabilsins á undan í 30,2% við upphaf þess næsta.

Það má með sanni segja og við getum markað það af umræðum í þinginu og málum sem eru afgreidd að það er enginn raunverulegur ágreiningur, hvorki flokkspólitískur hvað þá milli karla og kvenna, um þessi formlegu markmið og leiðir í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu. Við þekkjum það líka að jafnréttisáætlanir hafa verið samþykktar einróma af þingheimi og það er almenn samstaða um það sem heitir samþættingarleið í jafnréttismálum. Síðast en ekki síst er lagaleg staða karla og kvenna orðin jöfn, a.m.k. eftir orðanna hljóðan, eftir að karlar fengu sama rétt og konur til fæðingarorlofs. Hitt er svo annað mál að í löggjöfinni standa eftir fjölmörg ákvæði sem eru ókynbundin í orði en koma mjög misjafnlega við konur og karla eins og ýmis ákvæði í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Sumum okkar finnst að lítið hafi miðað í rétta átt undanfarin ár í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu karla og kvenna og sumir halda því líka fram að það sé ákveðið bakslag sem sérstaklega megi merkja af því að þingkonum fækkaði í síðustu alþingiskosningum. Markmið þessarar tillögu sem ég legg fram ásamt fleiri flutningsmönnum er að leita að rót þessa vanda, en tillagan miðar við könnun á stöðu kvenna í stjórnmálum og það er einungis sú staða sem tillagan tekur til og leit að ástæðum hennar í afstöðu og viðhorfum meðal almennings, kvennanna sjálfra og innan fjölmiðla.

Það er viðhorf þeirrar sem hér stendur að konur hafi sýnt að þær standa körlum hvergi að baki, hvorki á vettvangi stjórnmálanna né annars staðar. Við eigum eina eða fleiri kvenfyrirmyndir á næstum því öllum sviðum íslensks samfélags í hefðbundnum karlastörfum og stöðum. Konur í pólitík á Íslandi hafa hin síðustu ár fyrst og fremst gert þá kröfu að vera aðeins metnar að verðleikum. Þær hafa ekki reynt að höfða til kjósenda sem konur, vegna einhverra kynbundinna verðleika eða með sérstakri áherslu á hin mjúku mál. Það verður samt að segjast eins og er að hvorki konurnar sjálfar né karlarnir hafa haldið á lofti árangri af stjórnmálaþátttöku kvenna eða að því fylgi einhver ávinningur fyrir íslenskt samfélag að hlutur kvenna sé ekki minni en karla í íslenskri pólitík. Það hefur heldur enginn haldið því sérstaklega á lofti í seinni tíð að orðið hafi breyting á viðfangsefnum í stjórnmálum með auknum hlut kvenna á þingi eða í sveitarstjórnum. Það er svolítið gaman að velta fyrir sér þegar við tölum um mjúku málin og hörðu málin og ég get bara tekið það sem ákveðið dæmi að í umræðunni á undan sem fjallaði um sjávarútveg tók engin kona þátt í umræðunni. Engin kona sat í þingsal og hlustaði á þá umræðu, sem er alveg dæmigert. Það voru eingöngu karlar úr hópi þingmanna sem þar sátu og fylgdust með og tóku þátt. Á hinn bóginn þegar verið er að ræða hér, með undantekningum þó, heilbrigðismál, félagsmál, ákveðnar hliðar á menntamálum þá taka eingöngu konur þátt í þeirri umræðu og fylgjast með henni í þingsal. Svona er þetta kynbundið.

Ég gerði af þessu tilefni óformlega könnun á þátttöku kynjanna, mismunandi þátttöku kynjanna varðandi umræðuna um samgönguáætlun sem var hér í fyrradag. Haldnar voru á þriðja tug ræðna í þeirri umræðu og í ljós kom að konur áttu 20% af þeim. Sjö konur tóku þátt í þeirri umræðu sem gera 20% af þeim sem tóku þátt. Mér er sagt að það sé vaxandi, að sífellt fleiri konur taki þátt í umræðu um samgöngumál. 20% virkni í umræðunni á móti rúmlega 30% sæta sem konur skipa í þinginu.

Það er margt sagt og margar kenningar uppi en altalað er að konur standi síður saman eða með öðrum konum en karlar með körlum í stjórnmálabaráttunni, í prófkjörunum og líka í starfi innan stjórnmálaflokkanna. Margir halda því fram að rýrari hlutur kvenna í stjórnmálum stafi fyrst og fremst af rýrari hlut þeirra sem félagsmanna í stjórnmálaflokkum, en eins og við vitum fækkar konum jafnt sem körlum sífellt í starfi stjórnmálaflokka sem félagsmenn og er það áhyggjuefni hjá mörgum, ekki bara út frá jafnréttissjónarmiðum, heldur líka út frá virkni lýðræðisins. Þá er því haldið fram að litlu skipti þó að konum fjölgi á Alþingi, jafnvel þó að þær næðu 40% hlut meðan þær vinni ekki saman þverpólitískt og verði raunverulegt pólitískt afl. Í fræðunum er því gjarnan haldið fram að það sé lágmarkshlutur fyrir konur að ná 40% í þjóðþingum til að hafa raunveruleg völd og áhrif en aðrir segja að það skipti engu máli meðan þær vinni ekki saman. Fleiri og fleiri halda því fram að kyrrstaðan undanfarin ár og bakslagið stafi öðru fremur af því að konur með 30% hlut, bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi, séu farnar að ógna ekki bara stöðu karla heldur stólum karla, af því að öfugt við viðskiptalífið eru sæti á Alþingi og sæti í sveitarstjórnum afmörkuð tiltekin stærð. Fyrir hverja konu sem þar bætist við, hlýtur körlum að fækka. Aðrir halda því líka fram að karlar í stjórnmálum noti konur til að sýna kjósendum jákvæða hlið sína og flokks síns og konum sé bara hossað og hampað fyrir kosningar en ýtt til hliðar og frá völdum og áhrifum að kosningum loknum. Svo segja menn: Hvernig getur það gerst? Þá segja sumir: Þær vantar baklandið, sterkt bakland kvenna sem styður þær og hvetur þær til að standa fyrir sínu. Það vekur einmitt upp spurninguna um hvað konur standa fyrir í íslenskri pólitík í augum kjósenda. Sjá kjósendur skýrar ástæður til þess að styðja aukinn hlut kvenna í stjórnmálum? Óhjákvæmilega yrði það á kostnað karla því að valda- og áhrifastöður eru eins og ég sagði fyrir fram ákveðin stærð. Því má halda fram með réttu að kjósendur ráði í rauninni öllu um það á vettvangi stjórnmálanna hvort konur ná áhrifum og völdum til jafns við karla.

Loks ráða fjölmiðlar miklu eins og við vitum um viðhorf almennings. Bæði með því hvað þeir fjalla um og líka með því sem þeir fjalla ekki um. Þá vaknar sú áleitna spurning um kyndbundin viðhorf blaðamanna og þáttastjórnenda. Við hljótum að spyrja okkur að því hvað ráði því að hlutur kvenna sem þátttakenda í umræðuþáttum í undanfara síðustu alþingiskosninga var aðeins 24%, eins og rannsókn Þorgerðar Þorvaldsdóttur sagnfræðings leiddi í ljós. Maður hlýtur að spyrja sig út frá niðurstöðum kosninganna hvort þessi fjórðungsþátttaka kvenna hafi verið einhver vísbending um hver uppskera kvenna yrði þegar talið væri upp úr kjörkössunum. Vegna skoðanamyndandi áhrifa fjölmiðla er full ástæða til að kanna þetta og tillaga þessi tekur til þess að kanna líka viðhorfin á þeim bænum.

Frú forseti. Hugmyndin að þessari þingsályktunartillögu varð til í kjölfar málþings sem íslenskar, grænlenskar og færeyskar konur sóttu í Þórshöfn í Færeyjum á síðastliðnu sumri. Þar var fjallað um það viðfangsefni hvernig auka ætti hlut kvenna á vettvangi stjórnmálanna. Umræðurnar snerust öðru fremur um ástæður þess að ekki eru fleiri konur á þingi. Þær snerust líka töluvert um það hve mikill munur væri á fjölda kvenna á þingum þessara þriggja landa en það er mjög mismunandi. Eins og ég sagði áðan fækkaði konum hér í síðustu alþingiskosningunum. Þeim fjölgaði hins vegar verulega á grænlenska þinginu með því að landið varð allt eitt kjördæmi. Konur eru ekki nema 9% þingmanna í Færeyjum. Það segir í sjálfu sér að það skiptir máli hvernig kosningafyrirkomulagið er vegna þess að í Færeyjum fengu konurnar 20% atkvæða en eins og fyrirkomulaginu er háttað þar með persónukosningum nýtist þeim það ekki nema til 9% hlutar í þinginu. Við lok málþingsins voru dregnar saman helstu áherslur í inngangserindum og umræðum. Ein þeirra laut einmitt að efni þessarar tillögu, um þörfina sem við þingkonurnar frá þessum þremur þingum töldum á að kanna hver væru raunveruleg viðhorf meðal kjósenda og hverjar væntingar þeirra væru til stjórnmálaþátttöku kvenna. En tillögugreinin sem slík hljóðar svo, frú forseti:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er kanni viðhorf til kvenna í stjórnmálum, til áhrifa kvenna og valda og til gildis og þýðingar stjórnmálaþátttöku kvenna fyrir samfélagið. Nefndin kanni sérstaklega afstöðu almennra kjósenda, karla og kvenna, en leiti jafnframt eftir sjónarmiðum kvenna sem tekið hafa þátt í stjórnmálastarfi, svo og viðhorfum fjölmiðla, þ.e. blaðamanna og þáttastjórnenda af báðum kynjum.

Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar og mat á þeim fyrir 1. október 2005.“

Eins og í þingskjalinu kemur fram eru aðrar konur sem sátu þessa ráðstefnu meðflutningsmenn auk þeirra karla, þingmanna, sem þar eru nefndir.