131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:57]

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur ítreka þakkir mínar fyrir góðar viðtökur á málinu frá hv. þingmönnum sem hér hafa talað, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Jóni Gunnarssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni. Eins og ég sagði náum við aldrei neinum árangri nema við vinnum að þessu saman. Ég talaði um konur og pólitík, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerði áðan. Þetta vekur furðu af því að við erum öll jafnréttissinnar. Það er kannski munurinn, eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni, að sætin í sveitarstjórnum og þingsætin eru takmörkuð stærð. Það á ekki við í viðskiptalífinu. Það á ekki við úti á vinnumarkaði, nema náttúrlega yfirmannastöður hjá tilteknum fyrirtækjum og innan stjórnsýslunnar, en almennt ekki.

Þess vegna er kannski skiljanlegt eins og manni finnst vera raunin að um leið og konur ná einhverjum ákveðnum fjölda, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gat um, er þessi tilfinning hjá körlum að þær ætli að ýta þeim til hliðar, af því það er takmörkuð stærð. Þess vegna gildir svolítið annað um konur á vettvangi stjórnmálamanna eins og gagnvart því hvað þær geta náð langt margar í viðskiptalífinu.

Mér finnst gaman að hafa orð á þessu, vegna þess að ég skynjaði ekki í sama mæli skortinn á jafnrétti fyrr en ég fór að taka þátt í pólitíkinni. Áður en ég gerði það, fyrir árið 2000, tilheyrði ég lögmannastétt. Þar voru engir kvótar og engar eiginlegar hindranir fyrir konur, en eftir sem áður voru konur ekki nema 5% af þeirri stétt. Af hverju skyldi það vera? Það eru fleiri konur sem útskrifast orðið úr lögfræði en karlar. Það er vegna þess að konurnar fóru gjarnan í störf sem þýddi átta tíma vinnudag, reglulega útborguð laun o.s.frv., af því konurnar eru yfirleitt að axla meiri ábyrgð á fjölskyldunni og að geta sinnt henni en karlarnir. Þetta er ein skýringin.

Það eru undirliggjandi ástæður. Þess vegna held ég að fæðingarorlofið sem er okkur til mikillar fyrirmyndar og margir horfa til, síðasta hindrunin í lagalegu jafnrétti karla og kvenna, að það sé kannski stóra málið til framtíðar litið að karlar og konur axli þá ábyrgð jafnt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga umræðuna á langinn. Ég náði ekki í framsöguræðu minni að geta meðflutningsmanna, en þeir eru hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, sem eru allt konur sem tóku þátt í hinni góðu ráðstefnu í Þórshöfn í Færeyjum. Auk þeirra eru hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Magnús Stefánsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Að lokum, herra forseti, láðist mér í framsöguræðunni að geta þess að ég geng út frá því að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. félagsmálanefndar þar sem ég vona auðvitað að málið verði afgreitt út úr nefnd í tíma svo að hægt sé að hrinda þessari ágætu tillögu í framkvæmd, þannig að við getum lært og tekið mið af niðurstöðum þeirrar könnunar sem tillagan gengur út frá.