131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:32]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Fyrst vil ég leiðrétta eina tölu sem kom fram í upphafsræðu minni, framlög til spítalans fyrir tveimur árum voru 24,1 milljarður og fjárframlög til spítalans hafa hækkað um 1,4 milljarða á tveimur árum. Hins vegar er rekstur spítalans það sem af er árinu í jafnvægi og þess má geta, af því að verið er að tala um hagræðingu og sparnað, að spítalinn er undanþeginn almennri hagræðingarkröfu þetta ár. Við erum með dráttarvaxtamálið sem málshefjandi nefndi réttilega í skoðun.

Það er rétt að mjög gott starf er unnið á spítalanum við erfiðar aðstæður. Þær hafa verið erfiðar undanfarin ár vegna sameiningarinnar sem er farin að skila sér í beinum sparnaði, það er alveg ljóst. Aðalatriðið er þó að sameiningin leiðir til öflugri þjónustu á spítalanum og öflugri þjónustudeilda, þ.e. öflugri sviða sem geta veitt betri og öflugri þjónustu. Það sýnir að biðlistar á spítalanum eru farnir að styttast.

Ég hygg að menn skoði það þegar DRG-kerfið er komið í gagnið — það er að koma á spítalanum — að fjármögnun spítalans verði að einhverju leyti blönduð en þetta er hlutur sem þarf að skoða og leggja niður fyrir sér. Það er verkefnið fram undan.

Varðandi síðan það að stilla til friðar á spítalanum (Forseti hringir.) eins og málshefjandi orðar það, starfsfólk spítalans hefur alveg fullan hug á því (Forseti hringir.) að setja niður þessar deilur. Ég hef fylgst grannt með því og ég vona (Forseti hringir.) að það góða starf sem þar er geti haldist áfram.