131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[13:58]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Hæstv. forseti. Hinn 9. maí árið 2000 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að móta tillögur um að auka sveigjanleika íslenskra launamanna við starfslok. Leitað var eftir tilnefningu í nefndina og voru sjö aðilar úr atvinnulífinu, bæði fulltrúar verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda og fulltrúar frá ríki, skipaðir í þessa nefnd. Í skipunar- og erindisbréfi nefndarinnar frá 12. júní 2001 er verkefni hennar m.a. svo lýst:

„Nefndin skal gera grein fyrir vandkvæðum og álitamálum sem uppi eru varðandi fyrirkomulag starfsloka.

Nefndin skal fjalla um valkosti og mögulegar breytingar varðandi fyrirkomulag starfsloka og ráðstafanir sem slíkar breytingar myndu útheimta, t.a.m. varðandi iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði og lífeyrisgreiðslur.“

Nefndin skilaði af sér 4. október 2002 og lagði m.a. þetta til, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að hægt sé að fresta töku lífeyris til allt að 72 ára aldurs án þess að ávinningur réttinda stöðvist.“

Hún lagði einnig til:

„Nefndin telur mikilvægt að bein tengsl séu milli aukins svigrúms lífeyrisþega og flýtingar starfsloka annars vegar og réttinda og greiðslna úr lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum hins vegar. Þessi tengsl þurfa að vera einstaklingum algjörlega ljós þegar þeir taka ákvarðanir um hvenær vinnumarkaður er yfirgefinn og taka lífeyris hefst.“

Og:

„Nefndin telur að æskilegt sé að sem mestur sveigjanleiki sé fyrir hendi til að einstaklingar geti ákveðið að hefja töku lífeyris að hluta eða geti gert hlé á töku lífeyris ef slíkt hentar þeim, t.d. vegna endurmenntunar.“

Enn fremur kemur hér fram:

,,Nefndin telur einsýnt að skoða þurfi sérstaklega leiðir til að bregðast við sérstökum þörfum þeirra sem nálgast eftirlaunaaldur. Bent hefur verið á að vandi ýmissa stétta felist í álagi sem erfiðara er að mæta með hækkandi aldri og skertu starfsþreki eldra fólks, þannig séu t.d. annmarkar á að eldri starfsmenn geti sinnt ýmsum störfum sem fela í sér andlegt og líkamlegt erfiði.“

Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, skilaði nefndin af sér árið 2002. Af því tilefni vil ég beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra:

Hyggst ráðherra vinna þeim tillögum framgang sem nefnd á vegum ráðuneytisins lagði til í lokaskýrslu sinni frá 4. október 2002, um að auka sveigjanleika launamanna við starfslok?