131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:06]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og flestum er kunnugt er Norðurland vestra meðal þeirra svæða á landinu sem eiga í hvað mestri vök að verjast varðandi íbúaþróun, og brýn þörf er á að skipulega verði gengið til verka í uppbyggingu nýrra atvinnugreina. Raunin er að í hvert sinn sem auglýst er starf fyrir menntaða einstaklinga á Norðurlandi vestra, en það er því miður allt of sjaldan, sækja fjölmargir um, jafnt frá höfuðborgarsvæðinu sem annars staðar.

Nýlega var t.d. auglýst ráðgjafarstarf á Sauðárkróki þar sem 60 sóttu um og annað starf á Hvammstanga sem sex vel hæfir einstaklingar sóttu um. Það er því ekki þannig að menntað fólk vilji ekki búa úti á landi, heldur vantar störf fyrir það. Þar á hið opinbera að koma að, bæði með því að beina starfsemi opinberra stofnana út á landsbyggðina, úthluta verkefnum og styðja heimamenn í viðleitni þeirra við að auðga starfaflóruna. En mér er kunnugt um að þar er við ramman reip að draga og þó að stundum séu höfð uppi góð orð og jákvætt viðmót þegar erindi eru borin upp er látið þar við sitja. Til dæmis hafa Blönduósingar gengið bónleiðir til búðar í viðleitni sinni til að byggja upp þjónustu við matvælaiðnað. Þeim er alls staðar vel tekið í stjórnsýslunni og þeir fara á hvern fundinn á fætur öðrum — en þar við situr. Þannig mega hlutir ekki ganga fyrir sig, frú forseti. Það er lítilsvirðing við fólk að virða hvorki þarfir þess né aðstoða það þegar það reynir að klóra í bakkann og snúa við óheillaþróun í kapp við tímann.

Gerður hefur verið byggðaþróunarsamningur við Vestfirði, vaxtarsamningur við Eyfirðinga og nú síðast vaxtarsamningur við Sunnlendinga. Ég minni enn á þau orð núverandi forsætisráðherra fyrir um ári síðan að röðin væri komin að Norðurlandi vestra. (Gripið fram í: Norðvesturkjördæmi.) Norðvesturkjördæmi, sagði hann, já. Ég spyr því hæstv. iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra:

1. Er fyrirhugað að gera vaxtarsamning fyrir Norðurland vestra, svipaðan þeim sem gerður hefur verið fyrir Vestfirði og verið er að gera fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar? Ef svo er, hvenær?

2. Hefur komið fram ósk frá Norðurlandi vestra um gerð vaxtarsamnings?