131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:22]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Staða Byggðastofnunar er erfið. Tap af reglulegri starfsemi stofnunarinnar á árinu 2004 var 385 millj. kr. og 340 millj. kr. árið 2003. Af taprekstri undanfarinna ára leiðir að eiginfjárstaða stofnunarinnar hefur rýrnað mikið sem rekja má til mikilla útlánatapa. Mikið tap og há framlög á afskriftareikning hafa haft þær afleiðingar að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar hefur lækkað úr 11,8% í árslok 2002 í 9,5% í árslok 2004. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, má eiginfjárhlutfall ekki fara niður fyrir 8% af áhættugrunni. Af þessu má ljóst vera að í óefni stefnir ef starfsskilyrði stofnunarinnar batna ekki.

Byggðastofnun hefur haft nokkra sérstöðu á lánamarkaði að því leyti að hún hefur lögskilgreint starfssvæði og hlutverk. Markmiðið hefur verið að styrkja búsetu á landsbyggðinni með lágmarksaðgengi að lánsfé. Í samræmi við það hefur stofnunin veitt lán á hagstæðari kjörum en viðskiptabankarnir hafa gert. Lánveitingarnar hafa verið til lengri tíma en gengur og gerist, þ.e. 50–100% lengri, og lántakendur hafa fengið lengri aðlögun fram að fyrsta gjalddaga en tíðkast í almenna bankakerfinu auk þess sem stofnunin hefur verið þolinmóðari við innheimtu. Öll þessi sérkenni hafa skipt máli fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni enda hefur Byggðastofnun margsinnis komið að málum sem viðskiptabankarnir hafa ekki haft áhuga fyrir.

Atvinnulífið á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja og má ljóst vera að útlánatöp stofnunarinnar endurspegla einmitt þá stöðu. Þá hefur staða Byggðastofnunar enn versnað síðustu missirin í kjölfar aukins framboðs fjármagns frá viðskiptabönkunum. Sterkustu lántakendur Byggðastofnunar hafa átt kost á endurfjármögnun lána hjá stofnuninni á hagstæðum kjörum og hafa uppgreiðslur lána af þessum sökum verið talsverðar. Við þetta hefur lánasafn Byggðastofnunar veikst.

Iðnaðarráðuneytið og stjórnendur Byggðastofnunar hafa fylgst náið með þessari þróun og fundað um hana. Í mars sl. þegar uppgjörið fyrir árið 2004 lá fyrir var endanlega ákveðið að fá utanaðkomandi sérfræðing til að fara yfir stöðu Byggðastofnunar og greina kosti varðandi mögulega framtíðarþróun stofnunarinnar. Það er ráðgjafarfyrirtækið Stjórnhættir ehf. sem ráðuneytið hefur fengið til verksins. Til skoðunar er tekin öll starfsemi Byggðastofnunar sem í grófum dráttum má skipta í tvennt. Annars vegar er fjármálastarfsemi og hins vegar er rannsóknar- og þróunarstarf sem m.a. beinist að áætlunargerð og starfsemi atvinnuþróunarfélaga. Bæði þessi meginverksvið verða metin og skoðuð með tilliti til fjármálamarkaðarins almennt og þeirra sem vinna að sambærilegum rannsóknum og þróunarverkefnum. Greiningin mun bæði beinast að ytri þáttum í starfsumhverfi og innri þáttum starfseminnar. Lögð verður áhersla á að kortleggja starfsemi annarra sem sinna svipuðum eða sambærilegum verkefnum og Byggðastofnun, greina á hvaða sviðum þörf fyrir þjónustu stofnunarinnar er mest og hvar hún á mestan möguleika á að marka sér sérstöðu í framtíðinni. Við greiningu á innri starfsemi Byggðastofnunar verður einkum lögð áhersla á gæði í úrlausn verkefna, hagkvæmni í rekstri og faglegri hæfni þannig að hægt sé að meta á hvaða sviðum stofnunin hefur mestan möguleika á að skila árangri. Á grundvelli þessarar greiningar mun ráðuneytið skoða þá kosti um þróun Byggðastofnunar og verkefni hennar sem líklegastir eru til varanlegs árangurs. Reynt er að varpa ljósi á hvaða leiðir eru best til þess fallnar að stofnunin nái markmiðum sínum á komandi árum.

Að þessari greiningarvinnu lokinni verður tekin ákvörðun um hugsanlegar breytingar á starfsemi Byggðastofnunar. Stefnt er að því að verkefni þessu verði efnislega lokið nú í sumar.