131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:05]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Afleiðingar alþjóðavæðingar eru í stórum dráttum mjög jákvæðar alls staðar. Vissulega eru til gallar á því eins og öðru og vissulega þarf að standa vörð um að þeir komi ekki upp. Varðandi regnvatn einhvers staðar, það er náttúrlega bara spurning um lagasetningu í viðkomandi landi og hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með alþjóðavæðingu að gera. Menn geta lagt undir sig auðlindir og allt mögulegt burt séð frá alþjóðavæðingunni.

Hins vegar um það að ummæli mín um Írak séu ómálefnaleg. Það var jú þannig að menn höfðu beðið Saddam Hussein kurteislega að víkja frá völdum í heilan áratug. Í heilan áratug var búið að samþykkja hverja ályktunina á eftir annarri og aldrei gerðist neitt. Það væri örugglega enn þá svo og þessi maður hefði örugglega ekki orðið við þeirri kurteislegu beiðni að láta af völdum núna frekar en þá. Þetta er því ekki ómálefnaleg spurning og ekki ómálefnaleg ummæli. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi aftur og aftur gagnrýnt innrásina í Írak og það segir okkur að ef sú innrás hefði ekki verið framkvæmd væri Saddam Hussein þar enn þá við völd.