131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:04]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Rétt skal vera rétt. Þegar menn tala um að staða Lífeyrissjóðs bænda sé slæm þá er hún það vissulega, fólk á mjög lítinn rétt. Ég hef bent á það í þessum ræðustól að að meðaltali var ellilífeyririnn undir 15 þús. kr. fyrir síðasta ár. En það er líka vegna þess að menn hafa greitt af mjög lágum launum.

Talandi um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, vissulega er mismunandi réttur milli opinberu sjóðanna og almennu sjóðanna. Það er vitað og þekkt og allir eiga að vita það. En þá ættu menn líka að minnast á það að örorkulífeyrir frá B-deild LSR og opinberu sjóðunum er afskaplega lélegur því að hann miðast við áunninn lífeyrisrétt. Það er ekki framreikningur eins og t.d. hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Örorkulífeyrir Lífeyrissjóðs sjómanna er margfalt betri en örorkulífeyrir frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Þetta er því mismunandi eftir sjóðum, en menn þurfa að geta þess líka sem er miður. Maður sem er búinn að borga í tíu ár hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fær 20% af launum sem örorkulífeyri meðan hjá Lífeyrissjóði sjómanna fengi hann framreikning og gæti fengið 60–70% af þeim háu launum sem greidd eru inn í þann sjóð.