131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:09]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er nokkuð hissa á því að þú verðir ekki við ósk okkar um að fresta fundi.

(Forseti (BÁ): Forseti.)

Já, ég er steinhissa á því að forseti verði ekki við ósk okkar og svari því ekki hversu lengi eigi að halda fundi hér áfram. Mér finnst það bara virðingarleysi við okkur hv. þingmenn að því er ekki svarað hvað þingfundur á að standa hér lengi yfir.

Í öðru lagi er ég steinhissa á því að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skuli koma hér upp og taka ekki undir ósk okkar. Hvers vegna er það nú? Jú, það hefur komið fram í umræðunni. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson upplýsti hér að hv. þingmaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hafi skrifað merka grein eða verið í viðtali hjá BB þar sem hann segist nú ætla aldeilis að taka á málum og krefja hæstv. iðnaðarráðherra svara. Síðan þegar hann kemur hingað þá virðist hann frekar ganga erinda þess að málið verði afgreitt þannig að hæstv. iðnaðarráðherra svari ekki neinu. Og það er með ólíkindum að hæstv. iðnaðarráðherra sjái ekki sóma sinn í því þegar hér er verið að ræða hennar hjartans mál, að koma á breyttu skipulagi í raforkumálum, að koma hér og útskýra hag þjóðarinnar af því að hér eigi að hækka rafmagnið, hækka álögur á landsmenn. Hvað hefur hæstv. ráðherra að fela? Hvers vegna er hún ekki hér og útskýrir það fyrir þjóðinni? Ég get sagt það að fólk bíður eftir því að fá svör. Það óskar eftir að því verði svarað hvers vegna verið sé að hækka álögur á rafmagnið. Það botnar ekkert í þessu.

Þessari umræðu er framhaldið vegna þess að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni fá engin svör, herra forseti. Þess vegna er skynsamlegt að fresta umræðunni þannig að það fáist svör, að menn séu ekki hér að tala út í tómið.

Mér finnst það eðlileg krafa og virðing við fólkið í landinu sem fær reikninginn frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, að það fái einhver svör frá hæstv. ráðherra í stað þess að fá þögnina eina. Ég tel að ráðherrar sem haga sér svona séu í rauninni ekki að þjóna hag fólksins. Ég óska eftir því að þeir komi hér hreint fram og svari því hverra erinda þeir ganga með því háttalagi sínu að svara ekki fyrirspurnum um hækkaða rafmagnsreikninga sem Framsóknarflokkurinn er að senda inn um lúgur landsmanna. Það væri óskandi að hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins greindi okkur nú frá því (Forseti hringir.) hvað það er sem breytir skyndilega afstöðu hans þannig að hann vilji nú (Forseti hringir.) bara hlaupa í gegnum umræðuna án þess að fá nokkur svör. (Forseti hringir.)