131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:19]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar, að það mætti gera athugasemdir við og velta fyrir sér vinnulaginu á hinu háa Alþingi. Það vill svo til að við vorum að greiða atkvæði um vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, breytingar á henni eða viðauka, á fundi fyrr í dag. Þar er talað um 11 klukkustunda lágmarkshvíldartíma á sólarhring, sem Alþingi hefur samþykkt að landsmenn almennt, að vísu með einni eða tveimur skammarlegum undanþágum þar sem eru unglæknar, skuli njóta.

Það er orðið nokkuð sýnt að ef svo heldur fram sem horfir næst það ekki á þessum sólarhring, að þeir þingmenn sem mættu til funda upp úr átta í morgun og eiga að gera það aftur á svipuðum tíma á þeim degi sem nú er byrjaður fá ekki þann lágmarkshvíldartíma.

Vegna ummæla hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, sem stendur í vörninni fyrir stjórnarliðið, þá get ég sagt fyrir mig, af því að ég er ýmsu vanur í umræðum og fundahöldum á þingi, að mér væri ekki að vanbúnaði að ræða þetta mál áfram inn í nóttina að því tilskildu að umgjörð umræðunnar væri sómasamleg. Hún er það ekki. Nú er liðið hátt á aðra klukkustund frá því að óskað var eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra, ábyrgðaraðili þessa máls, kæmi til umræðunnar. Það bólar ekkert á hæstv. iðnaðarráðherra. Það koma einu sinni skilaboð um hvers sé að vænta í þeim efnum.

Hæstv. iðnaðarráðherra er í borginni, hún var hér handan götunnar í kvöld að bjóða upp á veitingar í Iðnó. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að það sé sjálfgefið að hæstvirtir ráðherrar taki sér sjálfdæmi um hvenær þeir sinni þingskyldum sínum eða verði við óskum um að mæta til umræðu í málum sem þeir bera ábyrgð á. Svo lengi sem ég verð á þingi mun a.m.k. ég reyna að halda uppi þeirri hefð að ráðherrar standi hér fyrir máli sínu.

Formaður iðnaðarnefndar er farinn heim lasinn. Varaformaður iðnaðarnefndar er í útlöndum. Hér er notast hér við íhlaupaafleysingarframsögumann og því haldið fram að þannig sé sóma meiri hlutans borgið í iðnaðarnefnd. Forseti Alþingis er í útlöndum. Varaforseti Alþingis er ekki hér, (Gripið fram í: Hann er í útlöndum.) er í útlöndum. Með fullri virðingu fyrir forsetunum þá er þetta frammistaðan hjá stjórnarliðinu og meiri hlutanum. Þetta eigum við stjórnarandstæðingar að láta bjóða okkur. Það er auðvitað ekki einasta ástæða til þess. Þetta er engin frammistaða og það er enginn svipur á þessu. Galtómir ráðherrabekkir hér í allan dag (Gripið fram í.) og ekki nokkur einasti ráðherra hefur látið svo lítið sem sjá sig frá því að líða tók á daginn, nema bara þegar farið var í atkvæðagreiðslur sem þurfti að tímasetja mörgum klukkutímum fyrir fram þannig að hæstvirtir ráðherrarnir mættu láta svo lítið að líta við í þinghúsinu.

Nei, herra forseti, það fer að harðna í þessu ef forseti hættir ekki þrjóskunni og hættir þessum fundi, gerir hlé á umræðunni. Ég ráðlegg forseta eindregið að fara að taka svolítið mark á óskum okkar.